Karfan er tóm.
Um nýliðna helgi spiluðu Víkingar sinn fyrsta leik eftir leikjapásuna gegn Esju nú á þeirra heimavelli . Lokatölur 2:5 Víkingum í vil.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur frá fyrstu mínútu enda höfðu Víkingar harma að hefna frá síðasta einvígi en Esjumenn hefðu með sigri komist stigi frá Víkingum í toppsæti deildarinnar. Esjumenn voru heldur hættulegri fyrstu mínúturnar og héldu pekkingum oft ágætlega í varnarsvæði Víkinga og áttu mörg skot að marki sem Rett varði vel. Vörn Víkinga hélt þó og þegar leið á lotuna komust Víkingar betur inn í leikinn. Fyrsta mark leiksins skoraði Ólafur Björnsson eftir að hafa þrætt sig í gegnum markteik Víkinga og skoraði milli fóta Retts. Þegar um 5 mínútur lifðu af lotunni jafnaði Ingþór Árnason metin þegar hann stal pekkinum af Esjumanni og komst með harðfylgi upp að markinu og nelgdi pökkinn upp í markhornið.
Víkingar mættu grimmari til leiks í annarri lotu og fóru að sækja meira en áður og lokuðu betur á uppspil Esjunar. Esjumenn voru þó fyrstir til að skora í Power Play þegar Michael Ward fékk góða sendingu í gegnum markteig Víkinga og setti pökkin snyrtilega milli fóta Retts. Víkingar voru ekki lengi að jafna en strax í næstu sókn skoraði Jón Benedikt Gíslason þegar hann tók frákast af skoti Hilmars Leifssonar og tróð pekkinum í tómt markið. Víkingar voru heldur sókndjarfari eftir þetta en staðan 2-2 eftir aðra lotu.
Í þriðju lotu tóku Víkingar öll völd á vellinum en Jóhann Leifsson kom Víkingum í 3-2 með góðu skoti utan af velli sem Daníel í marki Esjunnar réð ekki við. Víkingar héldu áfram að sækja en þá var komið að þætti Ben Dimarco sem skoraði tvö mörk með stuttu millibili og kláraði leikinn fyrir Víkinga en Esjumenn náðu ekki að setja nægilega mikla pressu á vörn Víkinga til þess að koma sér inn í leikinn aftur. Lokastaðan 5-2 og Víkingar því komnir með 7 stiga forskot á toppi deildarinnar. Næsti leikur Víkinga er næstkomandi helgi gegn SR á heimavelli í Skautahöllinni á Akureyri.