Karfan er tóm.
Um helgina fór fram hér hjá okkur Haustmót Skautasambands Íslands sem er fyrsta mót tímabilsins í listhlaupi og fyrsta mótið sem telst til Bikarmótaraðarinnar.
SA átti 7 keppendur á mótinu að þessu sinni. Mörg persónuleg met voru sett og glæsileg tilþrif sáust á ísnum.
Fyrri keppnisdagur
Stelpurnar í Basic Novice hófu keppni á laugardaginn. Þar átti Skautafélag Akureyrar 2 keppendur þær Berglindi Ingu Benediktsdóttur og Sædísi Hebu Guðmundsdóttur. Berglind fór fyrst inn á svellið og skautaði alveg gull fallegt prógramm sem skilaði henni 28.40 stigum sem er persónulegt met. Síðust inn á ísinn í þessum flokki var svo Sædís Heba hún skautaði alveg stór glæsilegt prógramm sem skilaði henni 38.41 stigi sem er persónulegt met.
Því næst var komið að keppni hjá stelpunum í Advanced Novice þær skautuðu stutta prógrammið á laugardaginn. Þar átti SA einn keppanda hana Freydísi Jónu Jing Bergsveinsdóttur. Freydís Jóna skautaði gríðar vel stutta prógrammið sitt hún var í fyrsta skipti með 2A í prógrammi og fékk hann fullsnúinn, þrátt fyrir fall. Prógrammið skilaði það henni 18,67 stigum í tæknieinkunn og 32,09 stigum í heildareinkunn fyrir stutta prógrammið sem er persónulegt met.
Síðastar á ísinn í dag voru stelpurnar í Junior flokknum með stutta prógrammið. Þar átti SA tvo keppendur þær Aldísi Köru Bergsdóttur og Júlíu Rós Viðarsdóttur. Aldís Kara hóf keppni og skautaði hún kraftmikið og fallegt prógramm. Aldís Kara fékk í tæknieinkunn 22,90 stig og 44,18 stig samanlagt fyrir stutta prógrammið. Síðust inn á ísinn var Júlía Rós, en hún var á sínu fyrsta móti í þessum keppnisflokki og með bæði 2A og 3S í prógramminu sem hún náð fullsnúnum. Júlía skautaði mjög fallegt prógramm. Hún fékk 23,02 stig í tæknieinkunn og 43,50 stig samanlagt fyrir stutta prógrammið. Það var því ljóst að það yrði heilmikil spenna fyrir seinni daginn.
Seinni dagur
Dagurinn hófst með keppni í flokknum Chicks. Þar átti SA 1 keppanda hana Ylfu Rún Guðmundsdóttur. Ylva Rún var að taka þátt á sínu fyrsta sambandsmóti og stóð hún sig gríðarlega vel.
Því næst var komið að keppni í flokknum Cups. Þar átti SA 1 keppanda hana Athenu Lindeberg Maríudóttur. Athena stóð sig glimrandi vel. Í yngstu flokkunum tveim er ekki raðað í sæti, en allir fá þátttökuviðurkenningu.
Keppni í Advanced Novice með frjálst prógram var næsti flokkur sem SA átti keppenda í, en þar var komið aftur að Freydísi Jónu Jing. Hún skilaði gullfallegu prógrammi aftur í dag, þó það væru nokkrir hnökrar. Hún var aftur með 2A í prógramminu og náði að full snúa hann þó hún næði ekki að lenda hann. Hún fékk 23,03 í tæknieinkunn fyrir prógrammið, samanlagt 49,60 stig fyrir frjálsa prógrammið sem er persónulegt met og samanlagt fyrir stutta og frjálsa fékk hún 81,69 stig sem er líka persónulegt met.
Þá var komið að stelpunum í Junior að skauta frjálsa prógrammið. Júlía Rós var á undan að skauta í dag. Hún skilaði stórglæsilegu prógrammi sem innihélt meðal annars 2 x 2A á plúsum og 3S auk annarra elementa. Júlía fékk fyrir þetta 39,41 stig í tæknieinkunn, samanlagt 78,95 stig fyrir frjálsa og samanlagt fyrir stutta og frjálsa fékk hún 122,45 stig sem er glæsilegur árangur hjá Júlíu á sínu fyrsta móti í Junior. Þá var komið að Aldísi Köru að skauta sitt prógramm. Hún skautaði af miklum krafti í dag, skilaði 2A í þrefaldri samsetningu á plúsum og 3S jafnframt á plúsum, þrátt fyrir nokkra hnökra á prógramminu hjá henni í þetta sinnið fékk hún 36,40 stig í tæknieinkunn og 73,67 stig samanlagt fyrir frjálsa og samanlagt fyrir stutta og frjálsa fékk hún 117,85 stig. Þessi frábæra frammistaða stúlknanna þýddi að þær röðuðu sér í tvo efstu sætin. Júlía Rós í 1 Sæti og Aldís Kara í 2 sæti.
Til hamingju með frábæran árangur kæru keppendur.