Karfan er tóm.
Í excel-skjali (sjá tengilinn neðst í fréttinni) eru upplýsingar um fyrstu leiki, röðun í riðlana, tímasetningu leikja, reglur mótsins og liðsskipan. Liðsskipanin hjá einhverjum gæti breyst eitthvað á milli daga því sum lið þurfa að kalla til menn til afleysingar vegna forfalla. Í einhverjum tilvikum verða leikmenn fengnir að láni á milli liða, en liðsstjórar eru beðnir um að hafa samband við keppnisstjórn ef þörf er á slíku. Leikmenn sem eru til í að spila aukaleiki fyrir önnur lið eru einnig beðnir um að gefa sig fram við keppnisstjórn. Ef leikinn er afleysingarleikur þýðir það auðvitað að viðkomandi leikmaður gæti lent í því að leika þrjá leiki í röð, þ.e. fyrst einn með sínu liði, síðan með öðru liði og svo aftur með sínu liði. Þetta verður því að gerast í góðu samráði allra.
Eitt gleymdist að tilkynna í gær. Ætlunin er að ekki verði nein upphitun fyrir leiki í formi þess að liðin sendi steina fram og til baka eins og verið hefur. Leikmenn geta hins vegar hitað upp að vild utan svellsins og tekið æfingarennsli án steina á svellinu. Liðin kasta upp á það hvort liðið hefur val um síðasta stein.
Liðsstjórar eru minntir á að sjá til þess að þátttökugjaldið verði greitt áður en liðið hefur leik í fyrstu umferðinni. Innifalið í þátttökugjaldinu er aðgöngumiði fyrir fjóra á lokahófið. Liðsmenn umfram þann fjölda og makar leikmanna geta keypt miða í sjoppunni í Skautahöllinni í dag og á morgun. Til að auðvelda skipulag er fólk hvatt til að ganga frá þeim kaupum sem fyrst. Miði á lokahófið kostar 4.000 krónur.
Dagskráin í kringum mótið verður kynnt betur síðar í dag þegar gengið hefur verið frá tímasetningum.