Karfan er tóm.
Garpar sátu yfir í elleftu umferðinni í kvöld en Mammútar spiluðu við Fífurnar. Nokkrar sveiflur voru í leik liðanna, bæði náðu einum þristi og bæði einum tvisti. Fífurnar jöfnuðu með tvisti í sjöttu umferðinni en Mammútar náðu að hanga á einu stigi í aukaumferðinni og vinna leikinn. Þar með náðu þeir Görpum að vinningum, en bæði liðin hafa unnið átta leiki og tapað einum. Bæði lið eiga eftir þrjá leiki, Garpar gegn Fífunum, Skyttunum og Víkingum, en Mammútar gegn Skyttunum, Víkingum og Riddurum.
Fálkar unnu Skytturnar í kvöld nokkuð örugglega eftir að hafa skorað fjögur stig í fyrstu umferðinni, og Riddarar unnu Víkinga.
Slagurinn um bronsið er því ekki síður spennandi en eftir leiki kvöldsins eru þrjú lið með fjóra vinninga, Skytturnar, Fálkar og Riddarar, síðan koma Víkingar með þrjá og Fífurnar með tvo. Skytturnar standa betur að vígi, eiga þrjá leiki eftir, en Fálkar og Riddarar eiga aðeins tvo leiki eftir. Víkingar eiga þrjá leiki eftir og eru því enn með í kapphlaupinu um bronsið. Fífurnar eiga tvo leiki eftir og hafa misst af möguleikanum á bronsverðlaunum.
Úrslit kvöldsins:
Mammútar - Fífurnar 7-6
Fálkar - Skytturnar 8-2
Riddarar - Víkingar 5-2
Óvíst er hvort tólfta umferðin verður leikin miðvikudagskvöldið 16. mars eins og ætlunin var, en hugsanlega verður þeirri umferð frestað um viku vegna úrslitakeppni í meistaraflokki kvenna í hokkíinu.
Nánari upplýsingar um framhaldið koma á vefinn á morgun.