Karfan er tóm.
Liðin sjö sem hafa skráð sig til leiks á Íslandsmótinu þetta árið eru: Fálkar, Fífurnar, Garpar, Mammútar, Riddarar, Skytturnar og Víkingar. Leikin verður tvöföld umferð, allir gegn öllum og fær efsta liðið eftir þá keppni titilinn Íslandsmeistari í krullu 2011. Það verður semsagt engin úrslitakeppni þetta árið. Hins vegar gæti komið til aukaleiks eða aukaleikja (úrslitaleikja) ef tvö eða fleiri lið verða jöfn í efsta sætinu og jafnt í innbyrðis viðureignum þeirra. Árangur úr skotum að miðju getur semsagt ekki skorið úr um Íslandsmeistara ef lið eru jöfn að vinningum og í innbyrðis viðureignum, aðeins almenna röð liða. Að öðru leyti verður mótið með svipuðu sniðu og var í Akureyrarmótinu og Gimli Cup þennan veturinn. Til dæmis verður áfram gefinn afmarkaður upphitunartími fyrir hvort lið (5 mínútur), síðan skot að miðju og svo framvegis. Ákveðið er fyrirfram hvort liðið leikur með dökkum steinum og hvort með ljósum.
Leikjadagskrá og nákvæmar reglur fyrir mótið verða birt hér á krulluvefnum á næstu dögum.
Fyrsta umferð mótsins verður mánudagskvöldið 31. janúar. Fyrir þá umferð verður dregið um töfluröð liðanna, nema hvað nú þegar er ákveðið að Riddarar sitja yfir í fyrstu umferðinni að þeirra ósk. Hin sex liðin þurfa því öll að mæta á mánudagskvöldið og spila.