Íslandsmótið í krullu: Fjögur lið efst og jöfn

Mammútar, Skytturnar, Riddarar og Víkingar eru nú jöfn á toppnum þegar deildarkeppnin er nær hálfnuð. Mammútar og Skyttur eiga leik til góða.

Sjöunda umferð deildarkeppninnar fór fram í gærkvöldi og er deildarkeppnin þar með hálfnuð nema hvað einum leik er ólokið, Mammútar og Skytturnar áttu að spila í gær en leiknum var frestað til miðvikudagsins 24. febrúar. Nú þegar mótið er því sem næst hálfnað er það orðið enn jafnara en áður. Fjögur lið á toppnum með fjóra vinninga, en annað hvort Mammútar eða Skyttur fara í 5 vinninga eftir að frestaði leikurinn hefur verið leikinn. Ásamt þeim hafa Riddarar og Víkingar nú fjóra sigra. Þar á eftir koma Fífurnar, Svarta gengið og üllevål með þrjá vinninga en Garpar sitja einir á botninum með tvo vinninga.

Af leikjunum þremur í sjöundu umferðinni fóru tveir í aukaumferð (framlengingu) þar sem jafnt var eftir sex umferðir. Í báðum framlengdu leikjunum sigruðu lið með því að "stela" aukafumferðinni, þ.e. voru ekki með síðasta stein en skoruðu samt. Víkingar jöfnuðu við Garpa í sjöttu umferðinni með því að skora 2 steina og skoruðu svo aftur 2 steina í aukaumferðinni þó svo Garpar ættu síðasta stein. Riddarar jöfnuðu við Üllevål í síðustu umferðinni og skoruðu svo í aukaumferðinni þrátt fyrir að Üllevål ætti síðasta stein. Endirinn á sjöttu umferðinni í þeim leik var reyndar dramatískur því Üllevål stóð með pálmann í höndunum, hafði tveggja stiga forystu og Riddarar með einn stein sem gaf skor þegar Üllevål átti aðeins eftir að senda sinn síðasta stein. Eðlilegast í þeirri stöðu hefði verið að sleppa því að senda steininn og leyfa Riddurum að skora eitt stig í lokaumferðinni því það hefði dugað Üllevål til að vinna leikinn 5-4. Þess í stað ætluðu Üllevål að bæta við stigi en ekki vildi betur til en svo að þeir skutu öðrum steini frá Riddurum inn í hringinn þannig að Riddarar fengu tvö stig og jöfnuðu leikinn, og unnu svo aukaumferðina og þar með leikinn 6-5.

Úrslit kvöldsins:

 Víkingar (185,4) - Garpar (185,4) 
 6-4
 Üllevål (185,4) - Riddarar (33)
 5-6
 Fífurnar (139) - Svarta gengið (21,5)   2-6
 Skytturnar - Mammútar
 frestað

Öll úrslit, leikjadagskrána og tölfræði má finna í excel-skjali hér.

Áttunda umferð deildarkeppninnar, og sú fyrsta í síðari hluta mótsins, fer fram mánudagskvöldið 22. febrúar en þá eigast við:

Braut 1: Skytturnar - Riddarar
Braut 2: Fífurnar - Mammútar
Braut 3: Garpar - Svarta gengið
Braut 4: Üllevål - Víkingar

Ísumsjón: Skytturnar, Riddarar, Fífurnar, Mammútar