Karfan er tóm.
Liðin þrjú sem höfðu aðeins náð einum sigri í fyrstu fjórum umferðunum sigruðu andstæðinga sína í leikjum fimmtu umferðar. Tvö efstu liðin töpuðu, þar á meðal Mammútar sem töpuðu sínum fyrsta leik en sitja þó áfram einir á toppnum með fjóra sigra.
Mammútar voru komnir í kjörstöðu gegn Víkingum eftir fjórar umferðir en köstuðu frá sér sigrinum í tveimur síðustu umferðunum, Víkingar sigruðu 7-5. Skytturnar, sem voru í öðru sæti fyrir fimmtu umferðina töpuðu í kvöld sínum öðrum leik í röð, nú gegn Fífunum í framlengdum leik, 5-6. Riddarar hafa nú náð jafnmörgum vinningum og Skytturnar eftir góðan sigur á Görpum í kvöld, 7-2. Üllevål, sem stóð uppi án sigurs eftir þrjár umferðir, hefur nú unnið tvo leiki í röð, sigraði Svarta gengið í kvöld með því að skora tvo fjarka og þó svo Svarta gengið ynni fjórar umferðir dugði það ekki til, úrslitin 8-7 Üllevål í vil.
Úrslit 5. umferðar:
Víkingar (19) - Mammútar (185,4) | 7-5 |
Üllevål (39) - Svarta gengið (130) | 8-7 |
Riddarar (168) - Garpar (162) | 7-2 |
Skytturnar (77) - Fífurnar (185,4) | 5-6 |
Mammútar halda toppsætinu þrátt fyrir sigur, hafa unnið fjóra leiki. Skytturnar og Riddarar koma næstir með þrjá sigra en önnur lið hafa öll náð tveimur sigrum. Rétt rúmur þriðjungur er búinn af mótinu, fimm umferðir af fjórtán, og ljóst að keppnin á eftir að verða jöfn og spennandi um það hvaða fjögur lið komast í úrslitakeppnina. Röð hinna fjögurra efstu skiptir líka máli upp á það hvernig þau raðast í úrslitakeppninni og hver tækifæri þeirra verða þar. Öll úrslit, leikjadagskrá og stöðu má finna í excel-skjali hér.
Sjötta umferðin og sú næstsiðasta í fyrri hluta deildarkeppninnar, verður leikin mánudagskvöldið 15. febrúar:
Braut 1: Svarta gengið - Skytturnar
Braut 2: Garpar - Fífurnar
Braut 4: Mammútar - Üllevål
Braut 5: Riddarar - Víkingar