Karfan er tóm.
Leikur Mammúta og Norðan 12 var nokkuð opinn, mikið spilað inn í hring og oft tækifæri til að skjóta út - en eins og gengur og gerist gekk liðunum það misjafnlega. Mammútar náðu stigi í fyrstu umferðinni en Norðan 12 svaraði með stigi og stal svo stigi í þriðju umferðinni þegar fyrirliði Mammúta átti möguleika á að skjóta út og fá tvö stig en mistókst. Mammútar náðu svo tveggja stiga forystu með því að skora þrjú í fjórðu umferðinni, staðan orðin 4-2 Mammútum í vil. Í fimmtu og næstsíðustu umferðinni röðuðu Mammútar steinum bæði inn í hring og fyrir utan og staðan því orðin nokkuð snúin fyrir Norðan 12 sem átti engan stein í leik, allir farnir í gegn eða skotið út. Þegar kom að síðasta steininum í fimmtu umferðinni áttu Mammútar tvo steina inni og fimm steina til varnar fyrir framan. Ekki tókst betur en til en svo hjá fyrirliða Norðan 12 að hann setti inn þriðja steininn fyrir Mammútana sem þar með stálu þremur stigum og voru komnir í 7-2. Næsta vonlaus staða fyrir Norðan 12 þegar aðeins ein umferð var eftir. Í lokaumferðinni nægði Mammútum því að tryggja að minnst fjórir steinar andstæðinganna væru úr leik en á hallandi skautasvelli getur það reyndar stundum reynst erfitt. Liðsmenn Norðan 12 reyndu hvað þeir gátu að raða inn steinum á staði þar sem Mammútar næðu ekki til og það gekk nokkuð vel því þegar kom að síðasta steini leiksins átti Jens fyrirliði möguleika á að skjóta út steini frá Mammútunum og skora fimm stig. Skotsteinninn sjálfur vildi þó ekki stoppa og fór út ásamt steini Mammútanna þannig að eftir stóðu fjórir gulir sem gáfu stig. Það dugði Norðan 12 ekki og úrslitin 7-6 Mammútum í vil. Þetta sýnir að sjálfsögðu að menn eiga aldrei að gefast upp þó svo staðan 7-2 þegar ein umferð er eftir virðist nokkuð vonlaus.
Víkingar byrjuðu með látum gegn Görpum og skoruðu fjögur stig - stálu raunar fjórum stigum í fyrstu umferðinni. Garparnir náðu strax tveimur stigum til baka og stálu svo tveimur til viðbótar og jöfnuðu leikinn en eftir mælingu í fjórðu umferðinni fengu Víkingar eitt stig og náðu þá forystunni aftur, 5-4. Í fimmtu og næstsíðustu umferðinni virtist liðunum ganga illa að hitta það sem skjóta átti út og lokasteinninn hjá Görpum sem átti að hitta stein andstæðinganna og stoppa þar til að skora eitt stig rúllaði þessi í stað sjálfur út og þá áttu Víkingar innsta stein og stálu því stigi þar. Víkingar höfðu því tveggja stiga forystu þegar lokaumferðin hófst, 6-4. Víkingar skoruðu eitt stig í síðustu umferðinni líka og unnu, 7-4.
Niðurstaða fyrstu umferðarinnar í úrslitakeppninni er því sú að liðin tvö sem urðu efst í undankeppninni unnu liðin sem lentu í þriðja og fjórða sæti undankeppninnar. Mammútar hafa þar með 5 stig, Víkingar 4, Garpar 1 og Norðan 12 ekkert stig. Þrátt fyrir þessi úrslit eiga neðri liðin enn möguleika á að komast í úrslitaleikinn, en reyndar komast þau ekki bæði í hann því þau eiga eftir að mætast og bæði þurfa á fjórum stigum að halda til að komast mögulega upp í annað sætið og þar með í úrslitaleikinn um gullið.
Áhorfendur voru vel á fyrsta tuginn í Skautahöllinni og fylltu reyndar tuginn þegar leið á leikina og spennan magnaðist, nokkuð færri en keppendur engu að síður en þó fleiri en fréttamenn en eini meðlimur Blaðamannafélagsins sem mætti á fyrstu umferðina var sá sem þetta ritar.
Önnur umferð úrslitakeppninnar fer fram að morgni laugardags og hefjast leikirnir kl. 8:30. Þá eigast Mammútar og Garpar við á braut 2 og hins vegar Víkingar og Norðan 12 á braut 4. Þar eigast við feðgarnir Gísli Kristinsson og Jens Gíslason sem báðir eru fyrirliðar sinna liða. Mammútar og Víkingar geta tryggt sér sæti í úrslitaleiknum með sigrum í fyrramálið en bæði Garpar og Norðan 12 verða að sigra til að eiga áfram möguleika á að komast í úrslitaleikinn.
Öll úrslit í excel-skjali hér.