Karfan er tóm.
Deildar- og Íslandsmeistararnir, Mammútar, töpuðu sínum öðrum leik í röð í deildarkeppni Íslandsmótsins í kvöld, nú gegn Üllevål, 4-6. Mammútar hafa aðeins misst flugið eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína í mótinu. Þeir eru þó enn á toppnum, en Skytturnar komust aftur upp að hlið þeirra með öruggum sigri á Svarta genginu, 11-1, í kvöld. Með sigrinum á Mammútum hafa drengirnir í Üllevål nú unnið þrjá leiki í röð og blanda sér í baráttu efstu liða eftir brösuga byrjun í mótinu. Riddarar misstu af tækifæri til að komast að hlið toppliðanna, en liðið tapaði fyrir Víkingum í kvöld. Mammútar og Skytturnar hafa nú 4 vinninga en Fífurnar, Riddarar, Víkingar og Üllevål hafa 3 vinninga. Fífurnar sigruðu Garpa og komust þar með í þrjá vinninga. Á botninum, þó aðeins tveimur vinningum á eftir toppliðunum, sitja Garpar og Svarta gengið með 2 vinninga.
Úrslit sjöttu umferðar:
Svarta gengið (136) - Skytturnar (185,4) | 1-11 |
Garpar (165) - Fífurnar (42) | 2-5 |
Mammútar (55) - Üllevål (154) | 4-6 |
Riddarar (134) - Víkingar (185,4) | 2-4 |
Deildarkeppnin verður því áfram jöfn og spennandi og enn eiga öll liðin átta möguleika á að fara alla leið. Sex umferðum er nú lokið og mótið rétt tæplega hálfnað. Öll úrslit, leikjadagskrá og tölfræði má finna í excel-skjali hér.
Sjöunda umferð, og sú síðasta í fyrri hluta mótsins, fer fram miðvikudagskvöldið 17. febrúar. Þá eigast eftirtalin lið við:
Braut 1: Víkingar - Garpar
Braut 2: Üllevål - Riddarar
Braut 4: Fífurnar - Svarta gengið
Einum leik er frestað, Skytturnar og Mammútar munu eigast við miðvikudagskvöldið 24. febrúar vegna forfalla hjá Skyttunum í þessari viku.
Ísumsjón: Svarta gengið, Mammútar, Skytturnar, Fífurnar