Karfan er tóm.
Reglur Íslandsmótsins 2011 má finna í pdf-skjali hér. og er krullufólk hvatt til að kynna sér þær sem og hinar almennu krullureglur WCF, Alþjóða krullusambandsins. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að jafnt leikmenn sem fyrirliðar kunni reglurnar og viti hvernig á að bregðast við ef eitthvað gerist þar sem reynir á reglurnar.
Reglur Íslandsmótsins eru í meginatriðum þær sömu og við spiluðum eftir í Akureyrarmótinu og Gimli Cup nú í haust (upphitunartími, skot að miðju, tímataka o.s.frv.) en þó er rétt að vekja athygli á þeim fáeinu breytingum sem orðið hafa miðað við Íslandsmótið í fyrra - sbr. 2.b., 4 og 5.f.
Stærsta breytingin núna er sú að ekki verður spiluð úrslitakeppni heldur verður Íslandsmeistari það lið sem situr í efsta sæti að lokinni tvöfaldri umferð þar sem öll liðin leika gegn öllum. Reyndar gæti komið til aukaleiks eða aukaleikja um Íslandsmeistaratitilinn ef tvö eða fleiri lið eru jöfn í efsta sætinu. Við röðun liða gildir að sjálfsögðu fyrst fjöldi vinninga, síðan reglan um innbyrðis viðureignir og ef það dugar ekki til að raða liðum þá raðast þau eftir árangri úr skotum að miðju hrings sem tekin eru fyrir hvern leik eins og áður. Hins vegar getur lið ekki orðið Íslandsmeistari á betri árangri úr skotum að miðju, aðeins með fjölda vinninga eða betri árangri í innbyrðis viðureignum. Annars þarf aukaleik(i) til að skera úr um titilinn og ef fleiri en tvö lið eru jöfn fer röðun í aukaleiki fram eftir reglum WCF um aukaleiki (tie-breakers).
Fyrirfram ákveðnir litir á steinum, röðun í upphitun og tímataka á upphitun eins og var tekið upp í haust gildir einnig í Íslandsmótinu, en þó með þeirri breytingu að upphitunartími hefur verið styttur niður í 5 mínútur. Ætlunin er að reyna að nota hallarklukkuna til að telja niður þannig að leikmenn sjái hve mikið er eftir af æfingatímanum.
Inn í reglurnar var bætt ákvæði um að sama steinasett skuli alltaf notað á sömu braut, þ.e.: "Leikjum er raðað fyrirfram á brautir 2-5 og skulu sömu steinasett ávallt notuð á sömu brautum; B = braut 2, C = braut 4, D = braut 5."
Áfram verður miðað við ákveðið verklag vegna frestunar leikja eins og tekið var upp í haust og reglur WCF um refsingu ef lið mætir ekki til leiks á tilsettum tíma.
Til gamans má svo geta þess að hér neðar og til hægri á síðunni er komin inn ný könnun. Spurt er: Hvaða lið verður Íslandsmeistari?