Karfan er tóm.
Með sigri á Íslandsmótinu fyrr á árinu tryggði liðið sér þennan rétt og fara allir fimm liðsmenn Mammúta – Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason, Jens Kristinn Gíslason, Haraldur Ingólfsson og Sveinn H. Steingrímsson – til Aberdeen þann 2. desember ásamt Gísla Kristinssyni sem fer sem þjálfari liðsins og sækir fundi á vegum Evrópska krullusambandsins, ECF.
Þetta er í annað skipti sem Ísland tekur þátt í Evrópumótinu en blanda af Kústunum og Skyttunum tók þátt í mótinu 2007 Füssen í Þýskalandi. Til stóð að Mammútar færu til Örnsköldsvik í Svíþjóð í fyrra en þau áform þurftu að víkja af efnahagslegum ástæðum. Í Füssen spilaði Ísland sex leiki, gegn Spáni, Írlandi, Austurríki, Hollandi, Grikklandi og Belgíu, en einn leikur sem liðið átti að spila féll niður þar sem lið Kazakhstan mætti ekki til leiks. Íslenska liðið tapaði öllum leikjunum, sumum naumlega þó. Ísland endaði í 30. sæti af 31 þjóð, með árangri í skotkeppni fyrir mótið raðaðist íslenska liðið ofar en það serbneska, neðsta liðið í hinum riðlinum.
Evrópumótið skiptist í A- og B-flokk. Þetta árið taka 30 þjóðir þátt í karlaflokki og 22 í kvennaflokki. B-flokkur í karlaflokki skiptist í tvo tíu liða riðla en frá og með Evrópumótinu 2010 verður fyrirkomulaginu breytt og búin til C-flokkur. Röðun í A, B og C á næsta ári fer eftir árangri á mótinu núna, þannig að tvö neðstu lið í flokki færast niður og tvö þau efstu færast upp:
A-flokkur: A1-A8, B1, B2.
B-flokkur: A9, A10, B3-B14, C1, C2.
Liðin sem enda neðar en í 14. sæti í B-hópnum núna færast í C-flokk (ásamt viðbótarliðum ef einhver verða) og fer sú keppni fram einhvern tímann haustið 2010, fyrir Evrópumótið (A og B) sem fram fer í Champery í Sviss. Tvö efstu liðin í þessari keppni í C-flokki vinna sér rétt til þátttöku í B-flokki á mótinu í Sviss.
Íslenska liðið er í riðli B2 en keppinautar þess í riðlinum eru: Írland, Ungverjaland, Wales, Belgía, Lettland, Slóvakía, Austurríki, Króatía, Hvíta-Rússland og Ísland. Skipt er í riðla út frá úrslitum Evrópumótsins árið áður. Fyrsti leikur Íslands verður gegn Slóvakíu laugardaginn 5. desember og síðan eru tveir leikir á dag frá sunnudegi til miðvikudags, endar með leik gegn Írlandi miðvikudagskvöldið 9. desember. Þess má geta að í liði Slóvakíu eru a.m.k. tveir leikmenn sem komu hingað til lands og tóku þátt í Ice Cup 2006 og í liði Hvíta-Rússlands er leikmaður sem mjög líklega mætir til leiks á Ice Cup næsta vor.
Á styrkleikalista Alþjóða krullusambandsins, WCF, er Ísland í 41. og neðsta sæti með 3 stig. Á lista Evrópska krullusambandsins yfir árangur í Evrópumótum frá upphafi er Ísland í 32. sæti með 11 stig, fyrir ofan Kazakhstan og Liechtenstein. Þrjú Evrópulönd sem eru á lista WCF, Kazakhstan, Andorra og Luxembourg, taka ekki þátt í Evrópumótinu nú.
Upplýsingar um sjálft mótið, lið, leikjadagskrá og úrslit þegar þar að kemur, er m.a. að finna á vef mótshaldara í Aberdeen, www.ecc2009.co.uk.