Karfan er tóm.
Lið frá Íslandi er á leið til Finnlands til þátttöku á Heimsmeistaramóti eldri leikmanna í krullu sem fram fer í Vierumäki í Finnlandi dagana 9.-15. mars. Liðið hélt utan í gær, miðvikudaginn 5. mars, og er ferðinni fyrst heitið til Tårnby í Danmörku þar sem liðið mun verða við æfingar í tvo daga ásamt því kanadíska og danska. Væntanlega munu okkar menn leika æfingaleiki við þessi lið.
Þetta er í þriðja skipti sem Ísland sendir lið til keppni á Heimsmeistaramóti eldri leikmanna. Fyrst var farið til Skotlands 2005 þar sem okkar menn enduðu í 18. Sæti af 19 og unnu tvo leiki af níu, gegn Ástralíu og Wales. Í annað skiptið var farið til Danmerkur 2006 þar sem Ísland vann einn leik af sex, gegn Eistlendingum. Við sendum ekki lið til keppni í fyrra þegar mótið fór fram á vesturströnd Kanada.
Aldursmörk á mótinu eru 50 ár. Í liði Íslands eru fjórir leikmenn úr Krulludeild Skautafélags Akureyrar og einn frá Krulludeild Þróttar í Reykjavík. Liðsmenn eru: Gísli Kristinsson, sem er fyrirliði, Eiríkur Bóasson, Kristján Bjarnason, Kristján Þorkelsson og Páll Tómasson. Gísli hefur leikið fyrir Íslands hönd í bæði fyrri skiptin sem við sendum lið á HM eldri leikmanna, Eiríkur Bóasson var í liði Íslands á HM eldri leikmanna 2005 og á EM 2007 og Kristján Þorkelsson var í EM-liðinu 2007. Átján lið taka þátt í karlaflokki og tíu í kvennaflokki. Ísland leikur í riðli með Skotlandi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Nýja-Sjálandi, Englandi, Írlandi, Noregi og Ítalíu.
Laugardagur 8. mars kl. 6:30, Ísland – Írland
Sunnudagur 9. mars kl. 17:00, Ísland – Noregur
Mánudagur 10. mars kl. 10:00, Ísland – Finnland
Mánudagur 10. mars kl. 17:00, Ísland – England
Þriðjudagur 11. mars kl. 12:40, Ísland – Bandaríkin
Miðvikudagur 12. mars kl. 6:00, Ísland – Nýja-Sjáland
Miðvikudagur 12. mars kl. 16:00, Ísland – Skotland
Fimmtudagur 13. mars kl. 17:00, Ísland – Ítalía
Allar upplýsingar um mótið er að finna á vef mótshaldara, www.wscc2008.com. Að lokinni keppni í riðlunum tekur við úrslitakeppni efstu liða sem lýkur með úrslitaleikjum laugardaginn 15. Mars.