Karfan er tóm.
Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir sigraði sinn flokk á lokamóti European Criterium sem fram fór í Canazei á Ítalíu um helgina og það skilaði henni sigri í mótaröðinni samanlagt. Þetta verður að teljast frábær árangur hjá þessari ungu knáu skautakonu.
Ísold Fönn hefur tekið þátt í þremur mótum á mótaröðinni European Criterium. Í janúar tók hún þátt á Skate Helena í Serbíu og hafnaði þar í 2. sæti. Í mars tók hún svo þátt í Sportland Trophy í Búdapest og þar hafnaði hún einnig í öðru sæti. Í dag tók hún svo þátt á þriðja mótinu í Canazei á Ítalíu og þar gerði hún sér lítið fyrir og sigraði sinn flokk. Þessi glæsilegi samanlagði árangur skilaði henni sigri í mótaröðinni samanlagt.
Óhætt er að segja að Ísold Fönn hafi átt frábært skauta ár. Hún hefur sigrað á öllum mótum sem hún hefur tekið þátt í á Íslandi á árinu og á Vetrarmótinu um miðjan mars setti hún nýtt met í flokknum 10 ára og yngri þegar hún skilaði prógramminu sínu glæsilega og fékk fyrir það 40.95 stig.
Við óskum henni og foreldrum hennar innilega til hamingju með árangurinn.