Karfan er tóm.
Í kvöld mættust Jötnarnir og Björninn hér í Skautahöllinni, en þetta var fyrsti heimaleikur Jötnanna. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að skora og aldrei skyldi meira en eitt mark liðin að. Björninn bar þó sigur úr býtum, 6 – 5 í leik þar sem allt gat gerst.
Það var Josh Gribben sem opnaði markareikninginn með “wrap around-i” óstuddur. Trausti Bergmann jafnaði leikinn tveimur mínútum síðar og leikar stóðu jafnir 1 – 1 eftir fyrstu lotu. Það var svo brimbrettakappinn og bílabónarinn Úlfar Andrésson sem náði forystunni fyrir gestina í “power play” um miðbik 2. lotu en alls urðu mörkin 6 talsins í lotunni, þrjú hjá hvoru liði. Hinn ungi og efnilegi Sigurður Reynisson jafnaði leikinn skömmu síðar eftir frákast frá Jóni Gíslasyni, en þess má geta að Reynisson er í 3. flokki og aðeins 15 ára gamall. Hin mörk Jötnanna í lotunni skoruðu Jón Gíslason og Orri Blöndal. Mörk Bjarnarins skoruðu Brynjar Bergmann, litli bróðir Trausta, og svo kom Úlli með annað.
Það var því áfram allt í járnum þegar 3.lota hófst. Matthías Sigurðsson kom Birninum yfir en Björn Már Jakobsson jafnaði leikinn að nýju og bæði komu mörkin á fyrstu fjórum mínútum lotunnar. Í 2. lotu urðu Jötnar fyrir mikilli blóðtöku þegar bæði Josh Gribben og Ingvar Jónsson þurftu að hætta leik vegna meiðsla. Það var því á brattan að sækja í 3. lotu en í stöðunni 5 – 5 var mikill kraftur í Jötnunum og sóttu þeir án afláts og markið lá í loftinu, en ekki vildi pökkurinn inn. Það var svo gegn gangi leiksins að Bjarnarmenn skoruðu sigurmarkið þegar um 4.mínútur voru eftir af leiknum, en það var Hjörtur Björnsson sem átti það.
Þrátt fyrir naumt tap þá var margt mjög jákvætt við leikinn. Ungu leikmennirnir léku mjög vel, hinir 15 ára Siggi Reynis og Ingþór Árnason voru með betri mönnum á vellinum og fyrir þá er þetta ómetanleg reynsla. Jóhann Leifsson í sókninni og Einar Eyland í markinu áttu góðan leik og Einar er með þessum fyrstu tveimur leikjum sínum að stimpla sig inn í meistaraflokkinn með eftirminnilegum hætti.
Ingvar og Josh fóru báðir á slysadeild og munu verða frá æfingum og keppni í nokkrar vikur.
Jötnarnir lentu í vandræðum með brottvísanir og Helgi Páll aðaldómari blés í bölvaða flautuna eins og enginn væri morgundagurinn. Jötnarnir sátu uppi með sjö tveggja mínútna dóma en Björninn aðeins tvo, en náðu einungis að nýta sér liðsmuninn einu sinni. Jötnarnir gerðu sér hins vegar lítið fyrir og skoruð eitt mark einum leikmanni færri. Þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta skemmtilegur og spennandi leikur en úrslitin hefðu getað verið betri.