Marjomótið: Dregið í riðla og keppni hafin

Mikið um stórar tölur í fyrstu umferðinni. Svellið undarlegt í meira lagi.

Dregið var í riðla og fyrsta umferð Marjomótsins leikin í kvöld. Í A-riðil drógust Mammútar, Fífurnar, Garpar og Skytturnar og í B-riðil Víkingar, Fálkar, Riddarar og Íslenski draumurinn. Þetta eru sömu sjö liðin og tóku þátt í Íslandsmótinu, auk Íslenska draumsins, eina krulluliðinu á landinu sem eingöngu er skipað konum. Eitthvað voru aðstæður óvenjulegar í upphafi leikjanna, svellið mjög erfitt, virtist vera með mun minna frosti en venjulega og rennslið á steinunum mun minna en menn eiga að venjast. Þetta virtist þó eitthvað breytast þegar leið á leikina.

Í A-riðlinum sigruðu Mammútar Skytturnar með einu stigi, og Garpar unnu Fífurnar í mjög svo sveiflukenndum leik þar sem Garpar komust í 4-0, Fífurnar jöfnuðu en Garpar skoruðu strax fimm stig til baka.

Í B-riðlinum sigruðu Víkingar Íslenska drauminn nokkuð örugglega og Riddarar sigruðu Fálka með góðum endaspretti eftir að Fálkar höfðu jafnað leikinn í 6-6.

Úrslit kvöldsins:

A-riðill
Mammútar - Skytturnar  5-4
Fífurnar - Garpar  4-9

B-riðill
Víkingar - Íslenski draumurinn  10-2
Fálkar - Riddarar  6-10

Önnur umferð riðlakeppninnar fer fram mánudagskvöldið 11. apríl. Þá eigast við Mammútar-Fífurnar, Skytturnar-Garpar í A-riðli og Víkingar-Fálkar, Íslenski draumurinn-Riddarar í B-riðli. Ísumsjón: Fífurnar, Garpar, Fálkar, Riddarar.