Karfan er tóm.
Fyrsta umferð Marjomótsins í krullu fór fram í gær. Það sáust háar tölur í sumum leikjum gærkvöldsins en þó má segja að lægsta talan hafi verið athyglisverðust.
Eitt liðið skoraði fimmu, eitt liðið þrjá fjarka, eitt tvo fjarka og eitt einn fjarka. Hæsta skorið var í leik Víkinga gegn Davíð&Hallgrími, úrslitin 14-10, Víkingum í vil. Önnur úrslit urðu þau að ÓKEI sigraði Sjón 10-9, H2 sigraði ACE 6-5 og Vorboðarnir sigruðu Double Trouble í framlengdum leik, 8-6. Upplýsingar um það hverjir liðsmenn einstakra liða eru má finna í excel-skjalinu með úrslitum leikja.
Þrátt fyrir þetta háa skor í sumum leikjunum var það líklega lægsta tala kvöldsins sem er athyglisverðust því í skotkeppni eftir leiki kvöldsins gerði nýliðinn Hannella (Jóhanna María Elena Matthíasdóttir) sér lítið fyrir og setti sinn stein á miðjupunktinn – skorið sem sagt 0 sem er það besta sem hægt er að ná í þeirri keppni. Hinir vönu voru hins vegar flestir heillum horfnir og stóðust nýliðanum engan veginn snúning. Átta leikmenn náðu annað hvort ekki inn í hring eða skutu í gegn og allir nema fjórir voru yfir einum metra frá skotmarkinu, miðjupunktinum. Á eftir Hannellu var það Hallgrímur Valsson sem náði næstbestum árangri (6 sm), síðan Davíð félagi hans og bróðir (52) og svo Árni Grétar Árnason (87).
Önnur umferð mótsins verður leikin mánudagskvöldið 14. apríl en þá eigast við:
Braut 2: Víkingar – Vorboðar (B-riðill)
Braut 3: Bræður – Double Trouble (B-riðill)
Braut 4: ÓKEI – ACE (A-riðill)
Braut 5: SJÓN – H2 (A-riðill)
Eins og sjá má eru nafngiftirnar skemmtilegar. Lið Ólafs, Kristjáns og EIríks hlaut nafnið ÓKEI, Svana og JÓN spila sem SJÓN, Hannella og Halli eru H2, ACE nefnist lið sem líklega hefur sett markið á fyrsta sætið og ekkert annað, VORBOÐARNIR klæðast hinum fallega gulu kústagöllum, lið sem skipað er feðginum, sambýlisfólki, tengdasyni og tendaföður nefnist DOUBLE TROUBLE.
Allar upplýsingar um mótið, úrslit, liðsskipan og reglur má finna hér.