Karfan er tóm.
Víkingar mættu Bjarnarmönnum í Skautahöllinni á Akureyri þriðjudaginn 4. nóv. síðastliðinn, lokatölur 0-2 Birninum í vil.
Víkingar tefldu fram Einari Eyland markverði í fyrsta skipti á tímabilinu. Varnarmaðurinn Ingþór Árnason tók bara þátt í upphituninni en var svo dæmdur í leikbann korteri fyrir leik, þar sem aganefnd dæmdi um brot frá í síðasta leik nánast í beinni útsendingu á RUV með hjálp myndbandsupptöku frá þeim. Orri Blöndal er enn fjarverandi vegna meiðsla svo vörnin var nokkuð fáliðuð hjá Víkingum að þessu sinni.
Víkingar byrjuðu leikinn betur og stjórnuðu spilinu nánast alla fyrstu lotu en Bjarnarmenn voru grimmir í lausa pekki og sóttu hratt og fengu bestu færin. Fyrsta færi leiksins fékk Brynjar Bergmann þegar hann vann pökkinn af aftasta varnarmanni Víkinga og komst einn gegn Einari Eyland sem gerði sér lítið fyrir og varði skotið af öryggi. Víkingar héldu pekkinum ágætlega en komust lítt áleiðis gegn vörn Bjarnarins sem var mjög þétt framan við Ómar Smára í markinu. Undir lok lotunnar unnu Bjarnarmenn einvígi við rammann og Úlfar Andrésson kom út með pökkinn, skaut snöggu skoti fram hjá varnarmanni Víkinga beint upp í samskeytin og Bjarnarmenn fóru því með 1-0 forystu inn í leikhlé.
Önnur lotan einkenndist af brottrekstrum en hvort lið fékk 3 power play í lotunni. Bæði liðin börðust vel einum færri og liðunum gekk illa að koma skotum á mark þrátt fyrir liðsmuninn. Besta færi lotunnar fékk Lars Foder þegar hann fékk góða sendingu aftur fyrir vörn Víkinga og komst einn gegn Einari Eyland en hafði ekki erindi sem erfiði.
Þriðja lotan var mikil barátta þar sem Víkingar héldu pekkinum mikið í sóknarsvæðinu en Bjarnarmenn vörðust skynsamlega og héldu Víkingum að mestu frá markinu. Víkingar náðu ekki að skapa sér hættuleg færi og þó svo skotin hafi verið mörg þá voru það flest langskot sem Ómar varði auðveldlega. Bjarnarmenn fengu svo þriðja dauðfærið þar sem leikmaður komst einn gegn Einari Eyland en hann varði það líkt og hin. Þegar 4 mínútur lifðu af lotunni komust Bjarnarmenn í skyndisókn, Brynjar Bergmann sendi fallega sendingu milli tveggja varnarmann Víkinga beint á spaðann hjá Úlfari sem gat lítið annað gert en skorað. Víkingar reyndu hvað þeir gátu til þess að koma pekkinum í mark Bjarnarins en lukkudísirnar voru ekki á þeirra bandi í gær.
Björninn átti sigurinn fyllilega skilið enda spiluðu þeir frábæra vörn allann leikinn. Varnarmenn þeirra lokuðu vel í öllum svæðum og gerðu Víkingum erfitt fyrir að skauta óvaldaðir með pökkinn upp miðjuna og inn í sóknarsvæðið. Ljósi punktuinn hjá Víkingum var frammistaða Einars Eyland í marki Víkinga sem stóð frammi fyrir því erfiða verkefni að fá lítið af skotum en þau fáu sem komu voru úr góðum færum eða skyndisóknum en hann varði frábærlega þrátt fyrir að fá á sig 2 mörk. Ingvar Jónsson átti einnig skínandi leik en að þeim tveimur undanskildum voru aðrir leikmenn Víkinga slakir í gær.
Tölfræði leiksins er hér, staðan í deildinni er hér og leikinn er hægt að skoða á vimeo hér.