Karfan er tóm.
Aldrei áður hafa jafn margir mætt í áramótamótið eins og í gærkvöldi en alls spiluðu 36 manns í tíu liðum. Skemmtilegt var að sjá nýliða sem voru að koma í fyrsta skipti og aðra sem hafa komið áður en ekki spilað reglulega. Gunni Jó. kom að vanda með sitt fjölskyldu-lið en þetta mót er orðinn fastur liður hjá þeim um hver áramót. Það voru reyndar ekki nýliðar sem sigruðu mótið en þeir Jón Einar, Eiríkur og Viðar sem urðu efstir með 5 stig. Jafnir að stigum en með færri umferðir og því í öðru sæti urðu Jón Ingi, Óli Núma og Kristján Þorkels. Í þriðja sæti urðu Gísli, Hallgrímur og Ingólfur Helgason með 4 stig. Mótið tókst í alla staði vel en smá töf varð á því að leikar gætu hafist þar sem leikjaplanið sem búð var að setja upp gerði ekki ráð fyrir svo mörgum keppendum. Á endanum var leikið eftir svokölluðu Scenkel kerfi sem telur stig, þá umferðir og síðan steina. Leiknir voru fjögurra umferða leikir. Síðustu leikir enduðu um miðnættið og sáust augljós þreytumerki á sumum enda búið að leika 12 umferðir frá því um klukkan hálf níu um kvöldið. Allir fóru ánægðir heim eftir vel heppnað kvöld.