Karfan er tóm.
Í dag fylgdum við Jóni Hansen síðasta spölinn. Jónsi fæddist árið 1958 og lést á heimili sínu í Innbænum þann 25. desember s.l.
Jónsi ól allan sinn aldur í Innbænum og kynntist því snemma skautaíþróttinni og Skautafélagi Akureyrar. Hann spilaði íshokkí frá unga aldri og keppti fyrir hönd félagsins fram á fullorðinsár. Hann var einnig mikill áhugamaður um krullu, var og einn af stofnendum krulludeildar félagsins og keppti á mótum bæði hér heima og erlendis. Jónsi var frá unga aldri duglegur að leggja félaginu lið og lagði mikla vinnu í uppbyggingu skautasvæðanna, bæði út við Hafnarstræti sem og við uppsetningu vélfrysta skautasvellins sem vígt var á núverandi stað við Krókeyri í byrjun árs 1988. Jónsi tók jafnframt mikinn þátt í undirbúningi við byggingu Skautahallarinnar sem og rekstri hennar fyrstu árin eftir opnun.
Jónsi sat í stjórn félagsins um árabil og lét ekki sitt eftir liggja við hin fjölmörgu verkefni sem féllu til hjá félaginu. Hann var öflugur svellagerðarmaður og útbjó m.a. keppnisvöll fyrir skautahlaup í fullri stærð á tjörninni í Innbænum fyrir Vetraríþróttahátíðina 1980, svo dæmdi hann hokkíleiki, fór sem fararstjóri í keppnisferðir og sá til þess að flaggað væri á réttum tímum og með réttum hætti og svona mætti lengi telja. Þegar Árni Freyr, sonur Jónsa og Birgittu, fór að æfa íshokkí lét Jónsi ekki sitt eftir liggja og tók mikinn þátt í foreldrastarfinu og öllu sem því fylgdi.
Þó dregið hafi úr viðveru hans og störfum fyrir félagið hin síðari ár þá var hann ávallt öflugur bakhjarl sem gott var að leita til og taugar hans til Skautafélagsins voru alltaf sterkar. Hann græjaði það sem þurfti að græja og taldi ekki eftir sér að rétta hjálparhönd.
Við viljum þakka Jónsa fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur, samstarfið, velvildina og vináttuna.
Fyrir hönd Skautafélags Akureyrar vil ég votta eftirlifandi eiginkonu hans henni Birgittu Reinaldsdóttur, syni þeirra Árna Frey, fjölskyldu og vinum, innilegar samúðarkveðjur,
Sigurður Sigurðsson