Mögnuð endurkoma og sigur á Birninum

SA-menn koma ekki heim með skottið á milli fótanna
SA-menn koma ekki heim með skottið á milli fótanna


Víkingarnir eru vaknaðir. Eftir erfiða fyrstu tvo leikhlutana í öðrum leik SA og Bjarnarins í úrslitakeppni Íslandsmótsins snéru okkar menn leiknum sér í vil og skoruðu sjö mörk í röð!  Lokatölur: Björninn – SA 4-8 (3-1, 1-1, 0-6).

Bjarnarmenn voru beittari og ákveðnari framan af leik og voru komnir með 3-0 forystu eftir tæplega 15 mínútna leik. Ef til vill of mikill munur miðað við gang leiksins, en engu að síður staðreynd. Björn Már Jakobsson náði að minnka muninn undir lok leikhlutans.

Bjarnarmenn náðu aftur þriggja marka forystu, en Andri Már Mikaelsson minnkaði muninn í 4-2 seint í öðrum leikhluta. Eftir ósigur í fyrsta leik heima á Akureyri á þriðjudagskvöldið var útlitið ekki gott þegar öðrum leikhluta lauk, Bjarnarmenn með tveggja marka forystu.

En eins og margsannast hefur í íþróttum er leikurinn ekki búinn fyrr en lokaflautið gellur og hafi einhver verið búinn að afskrifa okkar menn í þessum leik þá var sokknum svo sannarlega stundgið upp í þann mann.

Innskot fréttaritara:
(Vegna slakra útsendingarskilyrða ákvað fréttaritari að hætta að horfa eftir annan leikhluta og hélt af stað heim á leið með strætisvagni. Hluti af heimferðinni fór í að velta fyrir sér hvernig væri hægt að skrifa um þennan leik og hvað þyrfti að segja til að fá áhorfendur til að mæta á laugardaginn ef svo héldi fram sem horfði, að okkar menn kæmu heim með tap á bakinu og stöðuna 0-2 í einvíginu. Þegar heim var komið var kveikt á tölvunni aftur til að athuga stöðuna og við blasti kraftaverk, staðan hafði breyst úr 4-2 í 4-8 SA-mönnum í vil.)

Viljum við fara heim með 0-2 á bakinu?
Vendipunkturinn virðist hafa verið inni í klefa í seinna hléinu. Ræða þjálfarans, fyrirliðans eða hvers svo sem opnaði munninn hefur væntanlega snúist um það hvort menn vildu fara heim með skottið á milli lappanna og bakið upp að vegg fyrir þriðja leikinn á laugardaginn og gefa Bjarnarmönnum færi á að hirða titilinn fyrir norðan. Eitthvað hefur að minnsta kosti komið SA-mönnum í gang og það svo um munaði. Hlutirnir fóru að ganga upp í þriðja leikhluta og mistökum Bjarnarmanna fjölgaði.

Eins og sjá má á tölfræðinni hér að neðan voru refsimínútur Bjarnarins mun fleiri en SA-manna og liggur það í dómi sem Brynjar Bergmann fékk um miðbik leiksins þegar hann fékk 5 mínútur fyrir „roughing“ og að auki 20 mínútna dóm, „Game Misconduct“.

Ótrúlegur þriðji leikhluti
Á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhlutans jöfnuðu SA-menn leikinn með mörkum Hermanns Sigtryggsonar og Sigurðar S. Sigurðssonar. Þeir létu ekki þar við sitja heldur héldu áfram að raða inn mörkunum, Lars Foder skoraði fimmta markið, Stefán Hrafnsson það sjötta, Lars það sjöunda og Andri Már Mikaelsson rak svo smiðshöggið á verkið með áttunda markinu um mínútu fyrir leikslok.

Algjörlega stórkostleg endurkoma okkar manna eftir að hafa lent þremur mörkum undir og staðan í einvíginu er nú 1-1. Allt opið, allt getur gerst.

Allir í Skautahöllina á laugardaginn!
Þriðji leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni á Akureyri laugardaginn 23. mars og hefst kl. 17.00. Hér með er skorað á allt SA-fólk sem vettlingi getur valdið að mæta í höllina og láta í sér heyra. Með trylltum stuðningi sýnum við okkar mönnum að það er allt hægt. Þeir sýndu okkur það í kvöld, við mætum og vinnum leikinn með þeim á laugardaginn – svona einfalt er það.

Mörk/stoðsendingar
Björninn
Róbert Freyr Pálsson 1/0
Zergei Zak 1/0
Falur Guðnason 1/0
Sigurður Árnason 1/0
Trausti Bergmann 0/1
Hrólfur Gíslason 0/1
Refsingar: 37 mínútur

SA
Lars Foder 2/1
Andri Már Mikaelsson 2/0
Stefán Hrafnsson 1/2
Jóhann Leifsson 0/2
Björn Már Jakobsson 1/0
Hermann Sigtryggsson 1/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Guðmundur Guðmundsson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Refsingar: 10 mínútur

Næsta verkefni: Mætum á leikinn á laugardaginn og mætum til leiks strax í upphafi. Eftir þessa endurkomu í kvöld á ekkert að geta stöðvað okkur!