Karfan er tóm.
Í kvöld var meistaraflokkur Skautafélags Akureyrar krýndur Íslandsmeistari og tóku leikmenn við verðlaunapeningum auk þess sem Björn Már Jakobsson fyrirliði liðsins tók við sjálfum Íslandsmeistarabikarnum úr höndum Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur bæjarstýru Akureyrar. Í skautahöllina mættu auk bæjarstjórans ýmsir velunnarar félagsins auk einhverra styrktaraðila og stjórnarmanna. Allir leikmenn liðsins klæddu sig upp, stilltu sér upp fyrir verðlaunaafhendingu og svo fyrir myndatöku. Að því loknu var skipt í lið og menn tóku síðustu æfingu vetrarsins.
Bikarinn hefur þá snúið aftur heim eftir tveggja ára dvöl í Höfuðborginni. Þetta var 13. Íslandsmeistarartitill meistaraflokks Skautafélags Akureyrar á þeim 17 árum sem keppt hefur verið um titilinn á milli 3ja liða eða fleiri. Skautafélag Reykjavíkur hefur hampað titlinum í hin 4 skiptin, fyrst árin 1999 og 2000, og svo aftur 2006 og 2007.
SA var vel að titlinum komið í vetur. Liðið var fyrnasterkt og fór frekar létt í gegnum undankeppnina, sigraði 16 leiki og tapaði aðeins tveimur. Þó voru viðureignir SA og SR jafnan jafnar og spennandi og það jafnræði hélst út tímabilið og fram í úrslitakeppnina. SA liðið skoraði lang flest mörk eða samtals 167 og fékk fæst mörk á sig eða aðeins 51 mark. Stigin urðu 48.
Skautafélag Akureyrar vill þakka styrktaraðilum stuðninginn í vetur, sjálfboðaliðum fyrir ómetanlegt framlag í kringum leiki og aðra starfsemi félagsins, og mótherjum úr öðrum skautafélagum fyrir skemmtilega keppni í vetur.