SA Íslandsmeistarar í karlaflokki

ÍSLANDSMEISTARAR 2010
ÍSLANDSMEISTARAR 2010

Í gærkvöldi tryggði Skautafélag Akureyrar sér 14. Íslandsmeistaratitilinn á 19 árum með góðum 6 – 2 sigri á Birninum fyrir fullri höll áhorfenda.  Það var gríðarleg spenna í loftinu fyrir þennan leik enda voru fyrstu fjórir leikir liðanna mjög jafnir og spennandi.  Þessi leikur fór eins af stað og allir hinir, Bjarnarmenn riðu á vaðið og náðu forystu snemma leiks er þeir nýttu sér tækifæri þegar þeir voru einum fleiri. 

Jóhann Leifsson gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn skömmu síðar en mörkin urðu ekki fleiri að þessu sinni.  2. lota réð úrslitum þar sem SA liðið stjórnaði leiknum og allt gekk upp bæði í sókn og vörn.  Lotan vannst 3 – 0 með mörkum frá Gunnari Darra Sigurðssyni, Andra Sverrissyni og Stefáni Hrafnssyni og þarna náðist mikilvægt forskot sem var þægilegt veganesti inn í 3. lotuna.

Baráttan var engu minni í síðustu lotunni en SA bætti heldur í en hitt á endasprettinum.  Mörkin í lotunni skoruðu Stefán Hrafnsson og Ingvar Þór Jónsson, lokastaðan 6 - 2.

Þar með er lokið einni skemmtilegustu úrslitakeppni í manna minnum.  Björninn hleypti miklu lífi í deildina með því að brjóta sér leið alla leið í úrslitakeppnina á síðustu metrunum og í raun stela sætinu af lánlausum SR-ingum.  Jafnframt kom frammistaða þeirra á óvart í úrslitakeppninni, liðið spilaði vel og fór vel af stað, var alltaf fyrst til að skora og unnu strax fyrsta leik.  Liðið er að mestu saman sett úr ungum leikmönnum og burðarásarnir eru rétt liðlega tvítugir að aldri. 

Þeir mættu ofjörlum sínum í þessari viðureign, en það er næsta víst að þeir eru komnir til að vera í toppbaráttunni, því þeir munu halda áfram að styrkjast og safna í reynslubankann sem mun skila sér í enn betri árangri á næstu árum.  Hvernig sem á þetta allt er litið þá geta þeir svo sannarlega borið höfuðið hátt eftir þessa úrslitakeppni.

Við hins vegar getum að sama skapi verið stoltir af árangrinum.   Gengi liðsins hefur verið dálítið brokkgengt í vetur en þrátt fyrir það urðum við bæði deildar- og Íslandsmeistarar.   Þegar líða tók á tímabilið og tap gegn Birninum varð niðurstaðan, var æfingafyrirkomulaginu breytt og æfingar þyngdar og allt kapp lagt á að auka styrk og þol.  Það skilaði sér á endasprettinum, leikmenn voru í góðu formi og breidd liðsins var góð.  Liðið er skemmtileg blanda af eldri og yngri leikmönnum sem allir sem einn lögðu á sig mikla vinnu til að tryggja þennan árangur.  Einnig naut liðið aðstoðar félagsmanna, stjórnar og annarra velunnar sem lögðu hönd á plóg við að halda utan um ferðir og leiki í vetur.

Það var síðan sérstaklega skemmtilegt að klára þetta á heimavelli fyrir framan allan þennan fjölda áhorfenda og segja má að öll úrslitakeppnin hafi verið mikill sigur fyrir íþróttina í heild.

ÁFRAM SA DEILDAR- OG ÍSLANDSMEISTARAR 2010