SA - SR, umfjöllun

Á laugardaginn mættust hinu fornu fjendur í Skautafélagi Akureyrar og Skautafélagi Reykjavíkur, í fyrstu viðureign liðanna í vetur.  Bæði lið höfðu unnið Björninn fyrr í vetur auk þess sem SR hafði gjörsigrað Narfa nokkrum dögum fyrr.

Bæði lið eru svipuð saman sett, þ.e.a.s. að mestu með heldur ungt lið og í hvoru liði er einn útlendingur, báðir frá Tékklandi.

SA fór betur af stað og hélt uppi miklum hraða og góðu spili nánast alla 1. lotu.  SA fékk m.a. powerplay fljótlega í lotunni og sýndi þar gott skipulag, náðu mörgum skotum að marki og sýndu sannkallaða meistaratakta.  Skömmu síðar fékk SA svo annað powerplay og í þetta skiptið 5 á 3 en þá virtist allt ganga á afturfótunum.

 

Þetta breytti þó ekki því að okkar menn réðu lögum og lofum á ísnum sem skilaði sér í tveimur mörkum, það fyrra frá Einari Valentine sem skoraði í þriðja frákasti Birgi Erni í marki SR til mikillar gremju sem væntanlega hefur hugsað varnarmönnum sínum þegjandi þörfina.  Seinna markið átti Andri Mikaelsson eftir sendingu frá Birni Jakobssyni.

 

Mesta ógnin frá SR stafaði frá hinum þunglamalega Daniel Kolar sem tók tvær rispur frá “Coast to Coast” og skoraði í seinni ferðinni og svo virtist sem varnarmenn SA hafi ekki þorað að fara í veg fyrir trukkinn.  Markið kom þegar skammt var eftir af lotunni og því var staðan 2 – 1 þegar leikmenn skautuðu til búningsherbergja.  Stoðsendinguna á trukkinn átti Birgir Örn Sveinsson markverja.

 

Í  næstu tveimur lotum var allt annar bragur á SA liðinu og lítið virtist ganga upp á meðan SR spilaði yfirvegaðan og stöðugan sóknarleik og komst hvað eftir annað í kjörin marktækifæri.  Besti leikmaður vallarins var án efa Ómar Smái Skúlason í marki SA sem segja má að hafi haldið sínu liði á floti.  Lengi vel komst SA varla út fyrir bláu og í tvígang á lokamínútu lotunnar slapp sami leikmaður SR einn á móti markmanni, en Ómar varði vel líkt og margoft fyrr í lotunni.  SR vann 2. lotu 2 – 0 og snéri þar með leiknum sér í vil, 2 – 3.  Annað mark SR skoraði enginn annar en Akureyringurinn Arnþór Bjarnason sem nú er nýgenginn í raðir þeirra sunnlensku, en hann kemur ferskur og endurnærður úr mikilli menningarferð um S-Ameríku.

 

Í 3. lotunni bættu SR við sínu 4. marki og juku forystuna í 2 – 4 og þeir rauðu voru sem fyrr heillum horfnir.  Þarna eru margir ungir, kraftmiklir og hæfileikaríkir strákar en svo virðist sem útlimirnir hreyfi sig hraðar en hugurinn og minnti því hjörðin stundum á hauslausar hænur í rauðum hokkítreyjum.  Jón Heiðar dómari var svo hænsnabóndinn sem reyndi að smala þeim í refsiboxin, þar sem þær voru tíðir gestir.

 

Flest brot heimamanna voru grátlega glórulaus og þar voru þeir sem reyndari ættu að teljast ekkert skárri en þeir yngri og það er næsta víst að fjöldi brottrekstra hafi verið banabiti SA manna í leiknum. 

 

Síðustu mínútur leiksins voru spennandi.  Heimamenn sóttu í sig veðrið á endasprettinum en helst til seint.  Þegar um ein mínúta var eftir af leiknum fékk SA powerplay og tók markmanninn úr netinu og þyngdi sóknina.  Það skilaði marki frá Steinari Grettissyni þegar um 30 sek voru eftir af leiknum eftir sendingar frá Fiala og Gíslasyni.  SR fengu a.m.k. tvö tækifæri til að skjóta í tómt mark SA en án árangurs og ekki urðu mörkin fleiri, lokastaðan 3 – 4 og SR koma ósigraðir út úr 1. umferð Íslandsmótsins.

 

Það má þó teljast jákvætt að þrátt fyrir slakan leik og fjöldann allan af brottrekstrum þá var munurinn á liðunum aðeins eitt mark.  Örlítil stilling á hormónaflæði nokkurra leikmanna getur gjörbreytt leik liðsins og þá getur fátt staðið í vegi fyrir góðum árangri liðsins.  Bestu leikmenn SA í þessum leik voru auk Ómars Smára þeir Helgi Gunnlaugsson og Sigurður Árnason.

Mörk og Stoðsendingar

SA:  Einar Valentine 1/0, Andri Mikaelsson 1/0, Steinar Grettisson 1/0, Jón Gíslason 0/1, Tomas Fiala 0/1,
SR:  Daniel Kolar 1/0, Ragnar Kristjánsson 1/0, Gauti Þormóðsson 1/0, Egill Þormóðsson 0/1, Birgir Örn Sveinsson 0/1, Steinar Veigarsson 0/1

Brottvísanir:
SA:  66 mín (þar af 2x10 og 1x20)
SR:  24 (þar af 1x10)