SA Víkingar – Björninn 8-1

Úr leik Víkinga - Björninn (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leik Víkinga - Björninn (mynd: Elvar Pálsson)

Víkingar báru sigurorð af Birninum í topslag deildarinnar í gærkvöld, lokatölur 8-1. Víkingar náðu fram hefndum frá óförunum í byrjun mánaðar þegar liðið tapaði 5-0 í Egilshöll og náðu með sigrinum 3 stiga forskoti á Björninn á toppi deildarinnar. Gæði leiksins voru ívið meiri en sést hafa í vetur og greinilegt að mikið var undir en bæði lið eru nú í mikilli baráttu um stigin sem vantar uppá að tryggja sæti í úrslitakeppninni.

Leikurinn í gær hófst fjörlega, bæði lið spiluðu þéttann varnarleik og hraðann sóknarleik og létu finna duglega fyrir sér. Nokkuð var um 2 mínútna dóma í byrjun leiks á báða bóga en fyrsta markið skoruðu Bjarnarmenn í yfirtölu (powerplay) þegar pökkurinn barst á óskiljanlegan hátt á marklínu Víkinga eftir darraðardans í teignum og Trausti Bergmann ýtti pekkinum yfir marklínuna. Ekki voru fleiri mörk skoruð í lotunni en margir refsidómar féllu án þess að liðunum tækist að nýta yfirtöluna.

Víkingar byrjuðu aðra lotuna af krafti og skoruðu snemma mark en Andri Freyr Sverrisson stýrði þá skoti Jóns B. Gíslasonar í markið. Skömmu síðar skoraði Ben Dimarco glæsilegt mark þegar hann fékk sendingu í mitt sóknarsvæðið og þrumaði pekkinum í fjærhornið af stönginni og inn. Mótlætið virtist fara illa í Bjarnarmenn en Brynjar Bergmann sló til leikmanna Víkinga í fögnuðinum og var fyrir vikið sendur í sturtu og Víkingar í yfirtölu í 5 mínútur. Björninn fékk annan dóm og Víkingar (Víkingar spliluðu 5 á 3) voru ekki lengi að refsa þremur Bjarnarmönnum en Ben Dimarco skoraði með annarri bombu þegar hann skaut hátt úr sóknarsvæðinu rétt undir þverslánna. Andri Freyr Sverrisson skoraði svo fjórða mark Víkinga þegar hann tók frákast og lék laglega á markvörð Bjarnarins. Staðan orðinn 4-1 og nokkur hitti í leiknum en undir lok lotunnar var Hrólfi Gíslasyni úr Birninum var vikið í sturtu fyrir slagsmál og Gunnari Darra Sigurðsyni úr Víkingum fyrir að gerast bakpoki á herðum Hrólfs. Víkingar voru nokkuð kærulausir í lok lotunnar og virtist sem botninn væri dottinn úr þeirra leik.

Leikhléið virtist þó gera Víkingum gott en þeir komu fljúgandi inn í þriðju lotu og létu strax að sér kveða. Fyrsta mark lotunnar skoraði Ingþór Árnason sem kom á fljúgandi siglingu upp völlinn, stakk sér inn fyrir vörn Bjarnarins og lagði pökkinn í netið með bakhönd, frábært einstaklingsframtak þar. Leikurinn var fram og til baka eftir þetta en um miðja lotunna fékk Jóhann Leifsson pökkinn út við rammann í sóknarsvæðinu og sendi gullfallega banhandarsendingu inn fyrir vörn Bjarnarins þangað sem Andri Már Mikaelson hafði laumað sér og eftirleikurinn auðveldur. Nicolas Antonoff fannst á sér brotið í næstu sókn og tók í kjölfarið „McSorley“ sveiflu á leikmann Víkinga og var sendur útaf. Manni fleiri fullkomnaði Andri Freyr Sverrisson þrennu sína fyrir Víkinga þegar pökkurinn datt fyrir fætur hans og lagði pökkinn í opið markið. Ben Dimarco átti þá aðeins eftir að kóróna stórleik sinn og þrennuna þegar hann hamraði pekkinum upp í nær hornið eftir gott uppspil, staðan 8-1 og sigur í höfn.

Battamerki voru á liði Víkinga í gær frá fyrri leikjum vetrarins en liðið hefur hreinlega ekki spilað nægilega vel og því mjög jákvætt að sjá loksins góðann heilsteyptann leik á þessum tímapunkti. Liðið hefur endurheimt Andra Frey Sverrisson frá námi í Danmörku en endurkoma hans gefur liðinu mun fleiri möguleika í sóknaruppstillingum en hann átti frábærann leik í gær. Þá voru múrbrjótarnir Ingþór og Orri eins og klettar og voru hættulegir bæði í vörn og sókn. Ingvar Jónsson er að nálgast landsliðsform og sást ósjaldann fylgja sókninni upp völlinn og markaskorarinn Ben er búinn að finna fjölina sína. Næsti leikur Víkinga er strax á morgunn svo stuðningsmenn geta glaðst en þá mætir liðið SR á heimavelli en sá leikur hefst kl 19.30. Það verður spennandi að sjá hvort leikurinn í gær hafi verið einsdæmi eða er SA vélin kominn í gang?  

Þennan leik eins og alla aðra sem spilaðir eru á heimavelli Víkinga er hægt að skoða á http://www.ihi.is/is/upptokur