Karfan er tóm.
SA Víkingar báru sigurorð af SR í laugardaldnum í gærkvöld og fengu bikarmeistaratitilinn afhenntan í leikslok. SA Víkingar urðu reyndar deildarmeistarar á þriðjudag þegar Esja tapaði fyrir Birninum og gerði þar með útum vonir sínar um að ná SA að stigum. SA Víkingar eiga þar með heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem byrjar næstkomandi föstudag en eiga einn leik eftir í deildinni þegar þeir mæta Birninum hér heima á þriðjudag.
SA Víkingar fengu draumbyrjun í gærkvöld þegar Mario Mjelleli skaut á markið og pökkurinn hrökk af markverði SR og í markið og SA komið með forystu eftir rétt tæpar 40 sekúndur. SA voru ekki lengi í paradís því Daníel Magnússon jafnaði metinn fyrir SR eftir kæruleysi í varnarsvæðinu hjá SA en Daníel var að spila sinn fyrsta leik eftir að hafa meiðst á putta rétt fyrir jól gegn SA. Víkingar náður aftur forystunni strax í næstu sókn þar sem pökkurinn gekk hratt á milli manna og Sigurður Reynisson gróf pökkinn í netið. SA Víkingar fengu refsidóm á 7. mínútu leiksins sem SR nýtti þegar Robbie Sigurdsson fann Bjarka Jóhannesson sem lúrði á fjærstöng og jafnaði leikinn í 2-2. SA Víkingar héldu pekkinum betur í leiknum en SR voru skæðir í skyndiskóknum. Í byrjun annarrar lotu komst Miloslav Racansky upp völlinn og keyrði utan á varnarmenn SA og smellti pekkinum glæsilega upp í vinkilinn með bakhönd og SR komið með forystu í leiknum. SA Víkingar pressuðu nokkuð eftir þetta og voru sérstaklega hættulegir í yfirtölunum tveimur sem þeim gafst í lotunni en náðu ekki að koma pekkinum fram hjá Ævari sem varði eins og berserkur á köflum þrátt fyrir ansi dapra byrjun í leiknum. SA Víkingar fengu þriðju yfirtöluna sína snemma í þriðju lotu og náðu þar að jafna leikinn þegar Mario Mjelleli lagði upp Ingvar Jónsson sem skoraði örugglega í opið markið. Skömmu síðar fengu SR-ingar sinn fjórða dóm í leiknum og SA Víkingar nýttu yfirtöluna vel og á endanum kom Mario Mjelleli pekkinum í markið með góðu skoti og Víkingar aftur komnir með forystu í leiknum. SA Víkingar virtust ætla að sigla sigrinum heim hægt og örugglega síðustu 10 mínútur leiksins en á síðustu tveimur mínútum leiksins náðu SR góðri pressu og góðum færum og þar á meðal einu sem small í stöng rétt fyrir lokaflautið en Víkingar náðu að halda út og sigruðu í leiknum 4-3.
Næsti leikur Víkinga er gegn Birninum sem hafa heldur betur sýnt á sér klærnar síðustu misserin. Björninn eigir enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina en þurfa nauðsynlega á sigri að halda í leiknum á þriðjudag. Leikurinn hefst kl 19.30 í Skautahöllinni á Akureyri en fyrsti leikur í úrslitakeppninni er svo næstkomandi föstudag kl 19.30 á sama stað en það kemur í ljós á þriðjudag hvaða lið kemur þá norður.
Mörk og stoðsendingar SA Víkinga í leiknum:
Mario Mjelleli 2/1
Ingvar Jónsson 1/0
Sigurður Reynisson 1/0
Jussi Sipponen 0/2
Jón B. Gíslason 0/2
Orri Blöndal 0/1
Andri Már Mikaelsson 0/1