SA-Víkingar í toppsætið að nýju eftir sigur á Fjölni

Víkingar fagna marki.  Myndina tók Ólafur Þorgrímsson
Víkingar fagna marki. Myndina tók Ólafur Þorgrímsson

Í gærkvöldi mættust meistaraflokkar SA-Víkinga og Fjölnis í karlaflokki í leik sem hófst strax á eftir viðureign sömu liða í kvennaflokki. Um var að ræða hörkuviðureign sem lauk með sigri okkar manna 5 – 2. Leikurinn var samt jafnari framanaf en tölur gefa til kynna. Fjölnir opnaða markareikninginn í „power play“ um miðbik lotunnar en þar var á ferðinni Vignir Svavarsson eftir undirbúning frá Emil Alengård og Viggó Hlynssyni. Heiðar Jóhannsson jafnaði svo leikinn með glæsilegu marki undir lok lotunnar með stuðningi frá Degi Jónassyni og Andra Sverrissyni.

Í 2. lotu gekk ýmislegt á en í byrjun lotunnar varð óhapp hvar Sæmundur Leifsson aðaldómari leiksins steinrotaðist og var fluttur á spítala. Hlé varð gert á leiknum og Guðni Helgason, sem var annar tveggja línudómara í leiknum, var uppfærður í aðaldómara og Sigrún Agatha Árnasdóttir, sem var ljúka leik í kvennadeildinni, skellti sér í línudómaragallann, enda alvön því hlutverki.

Þegar leikurinn hófst að nýju bætti Viggó Hlynsson við öðru marki fyrir Fjölni eftir undirbúning Emils Alengård en lengra komust Fjölnismenn ekki. SA bætti við tveimur mörkum fyrir lok lotunnar, fyrst var það fjórða lína sem lagði sitt af mörkum með marki frá Pétri Sigurðssyni eftir sendingu frá Ágústi Mána Ágústssyni og svo var það fasteignasalinn Gunnar Arason sem náði forystunni eftir sendingar frá Jóhanni Leifssyni og Una Blöndal.

Þriðju lotuna byrjuðu okkar menn svo að krafti og skorðu tvö mörk á fyrstu þremur mínútunum og gulltryggðu sigurinn. Fyrst var það Halldór Skúlason sem skoraði eftir sendingar frá Andra Sverris og Heiðari Jóhanns. Lokamark leiksins skoraði svo Uni Blöndal eftir sendingu frá Gunnari Arasyni.

Í marki SA stóð Róbert Steingrímsson og í marki Fjölnis var Nikita Montvids.

SA átti 43 skot á mark og Fjölnir 27.

Staðan í deildinni er þá þannig að SA-Víkingar eru á toppnum með 24 stig eftir 11 leiki, SR með 22 stig eftir 13 leiki, Fjölnir með 16 stig eftir 12 leiki og Hafnfirðingar reka lestina með 10 sig eftir 12 leiki.

Næstu leikir SA-Víkinga eru svo um næstu helgi þegar Skautafélag Hafnarfjarðar kemur í tvíhöfðaðheimsókn norður.