SA Víkingar Íslandsmeistarar 2022

SA Víkingar Íslandsmeistarar 2022 (Kristinn M.)
SA Víkingar Íslandsmeistarar 2022 (Kristinn M.)

SA Víkingar tryggðu sér í gærkvöld Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí með 9-1 sigri á SR í 4. leik úrslitakeppninnar í Hertz-deild karla sem fram fór á heimavelli SR í Laugardalnum. Frábær endir á góðu tímabili SA Víkinga og 23. Íslandsmeistaratitill Skautafélags Akureyrar í höfn.

Leikurinn í gærkvöld fór hratt af stað og gæðin í byrjun beggja liða með því besta sem sést hefur í úrslitakeppninni og bæði lið að spila til sigurs. Það var mikil stöðubarátta um allan ís á fyrstu mínútunum leiksins þar sem liðin börðust hart um stjórn á leiknum en það var SR sem vann einvígin í upphafi leiks og náði sóknum á meðan Víkingar komust lítið fram á við. SA Víkingar gáfu þó ekkert eftir og náðu fljótt að vinna sig inn í leikinn og fóru að ná meiri stjórn á pekkinum og augljóst að liðið vildi alls ekki að láta söguna úr öðrum leik úrslitakeppninnar endurtaka sig. Á 11. mínútu leiksins  skoruðu SA Víkingar fyrsta markið en Jói Leifs átti þá skot sem speglaðist af kylfu og svo af rammanum bakvið mark og fram hinu megin við markið þar sem Hafþór Sigrúnarson var mættur og lagði pökkinn nokkuð auðveldlega í opið markið og SA Víkingar komnir með mikilvæt fyrsta mark leiksins. Bæði lið fengu brottvísanir í kjölfarið og tækifæri til að breyta stöðunni í yfirtölum en náðu lítið að opna varnirnar og staðan 1-0 Víkingum í vil eftir fyrstu lotu. Strax í upphafi annarrar lotu skoraði Heiðar Krisveigarson mark af miklu harðfylgi þar sem hann náði frákasti af góðu skoti Róberts Hafbergs og kom Víkingum í 2-0. SR sótti nokkuð hart að marki Víkinga í kjölfarið en um miðja lotuna fengu Víkingar yfirtölu og það tók liðið ekki langan tíma að nýta hana en ískaldur Róbert Hafberg sýndi mikla yfirvegun og setti pökkinn með bakhönd í markið eftir sendingu Heiðars Kristveigarsonar og kom Víkingum í 3-0. Derric Gulay skoraði skoraði svo 4 mark Víkinga strax í næstu sókn og Unnar Rúnarson það fimmta markið í undirtölu skömmu síðar og þá strax ljóst að það eitthvað mikið þyrfti að ske til að koma í veg fyrir sigur Víkinga. SR tókst að minnka muninn í lok lotunnar og staðan 5-1 fyrir síðustu lotuna. SA Víkingar komu gríðarlega einbeittir til leiks í 3. lotunni og gáfu strax tóninn í vörninni á meðan SR gáfu allt í sóknina en Jakob Jóhannsson átt hvern pökkinn á fætur öðrum í markinu hjá Víkingum og lét það líta afskaplega auðveldlega út. Á meðan bættu SA Víkingar við mörkum í hinum endanum en Róbert Hafberg skoraði 6. markið með laglegu einstaklingsframtaki á 44. mínútu leiksins og Ormur Jónsson skoraði svo 7. markið af bláu línunni með lúmsku skoti og það í þriðja sinn í seríunni. Matthías Stefánsson skoraði svo 8 mark Víkinga með góðu skoti og Derrick Gulay kórónaði svo stórsigur Víkinga aftur með góðu skoti á lokamínútu leiksins. Stúkan í Laugardal valt nánast inná völlinn við loka flautið en um 100 manna stuðningsveit SA sem trallað hafði í stúkunni í Laugardal frá fyrstu mínútu virkaði sem bensín á leik SA Víkinga í gærkvöld.

Leiðin að titlinum hefur verið löng en hópurinn var nokkuð þunnur í upphafi móts. Það var ungt lið sem fór í Continental-Cup í Litháen í haust en reynslan þar var mikilvæg enda margir leikmenn sem þar voru enn blautir á bakvið eyrun í meistaraflokki en eru nú fáeinum mánuðum síðar orðnir mikilvægur hluti af Íslandsmeistaraliði Víkinga. Liðið var þó en þá með bestu sóknarlínu deildarinnar síðustu ára með þá Jóa, Andra, og Haffa sem skiluðu hátt í 3 mörkum í leik að meðaltali í vetur. Liðið styrktist einnig eftir því sem leið á tímabilið með innkomu Unnars, Halldórs, Derricks og Einars og breiddin var þá orðin mun meiri. Markvarðarstaðan hefur einnig verið gríðarlega vel skipuð með þá Jakob og Róbert. Þjáfarar Víkinga þeir Sami og Rúnar hafa náð að breytt leikstíl liðsins á síðustu árum og merkilegt að hápressa er nú orðið einhverskonar einkennismerki SA Víkinga sem er annað en áður var ásamt aukinni áherslu á sóknarleik. Liðinu gekk vel framan af tímabili en átti þó í stökustu vandræðum með að loka leikjum og SR sýndi heldur betur styrk sinn þegar liðið sigraði ekki aðeins Víkinga á heimavelli SA í desember heldur skutu jafn mörgum skotum og Víkingar sem hefur verið afar sjaldgæft á okkar heimavelli í gegnum tíðina. SA Víkingar tryggðu sér svo deildarmeistaratitilinn á meðan lið SR virtist dala undir lok tímabilsins en á meðan væntingarnar jukust á lið Víkinga þá brýndi SR vopnin og úr varð úrslitakeppni sem var ein sú skemmtilegasta. Fyrsti leikurinn á Akureyri var frábærlega spilaður af báðum liðum og hokkíþyrstir áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn. Annar leikurinn var einnig gríðarlega spennandi og skemmtilegur og SR sýndi að þeir gátu stjórnað leiknum sem hentaði Víkingum illa og unnu verðskuldaðan sigur. SA Víkingar náðu vopnum sínum í þriðja leik og lögðu þar grunninn að sigri sínum í leik 4. sem var frábær skemmtun.

Frábær endir á stórskemmtilegri úrslitakeppni sem hefur varpað ljósi á margt það jákvæða sem hefur gerst í sportinu á undanförnum árum. Það er langt síðan að íslenskt íshokkí hefur skartað jafn mikið af frambærilegum ungum leikmönnum sem spila stór hlutverk í sínum liðum eins og í þessari úrslitakeppni og miklar framfarir hafa orðið í tækni og hraða. SA Víkingar eiga svo sannarlega titilinn skilið í ár þar sem að allt liðið lagði sitt á vogarskálarnar og félagið er stollt af þessu frábæru hokkíliði sem og öllu fólkinu í félaginu sem flykkist á bakvið liðið þegar mest á reynir.

(myndir: Kristinn Magnússon)