Karfan er tóm.
SA Víkingar báru sigurorð af Esju í gærkvöld, lokatölur 3-2. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur Víkingum en með sigri gátu þeir tryggt sér sæti í úrslitakeppninni sem þeir og gerðu.
Á höfuðborgarsvæðinu var ekki síður mikilvægur leikur í gangi á sama tíma þegar SR og Björninn áttust við í leik sem einnig gat skorið úr um hvort liðið kæmist í úrslitakeppnina en SR sigraði með 4 mörkum gegn einu og er því ljóst að SA Víkingar og SR munu mætast þetta árið. Úrslitakeppnin byrjar því óformlega næsta laugardag því þá mætast þessi tvö lið í Skautahöllinni á Akureyri en aðeins tvö stig skilja liðin að svo þetta verður úrslitaleikur um bæði heimaleikjaréttinn og deildarmeistaratitilinn.
Víkingar voru með sitt sterkasta lið í gærkvöld en Esjumenn komu fáliðaðir þó hvergi væri veikann hlekk að finna. Leikurinn í byrjaði nokkuð rólega miðað við mikilvægi hans. Spilið gekk illa upp hjá Víkingum en Esjumenn sem höfðu engu að tapa mætu með baráttu og gleði að vopni og létu Víkinga virkilega vinna fyrir hlutunum. Esjumenn voru sterkari framan af en leiftrandi sóknarleikur þeirra kom Víkingum eflaust í opna skjöldu. Þjálfari Esju, Gauti Þormóðsson, reimaði til að mynda á sig skautanna vegna manneklunnar og stóð vörnina með prýði en hann var á sínum tíma skæðasti sóknarmaður deildarinnar áður en hann lagði skautanna á hilluna vegna meiðsla fyrir síðasta tímabil. Esju menn skoruðu fyrsta markið eftir hraða sókn en það skoraði Sturla nokkur Snorrason í opið mark strax eftir sendingu frá Kristjáni Gunnlaugssyni. Á fjórtándu mínútu jöfnuðu Víkingar metinn eftir hraða sókn þar sem Ben Dimarco og Jón B. Gíslason spiluðu pekkinum sín á milli og Ben kláraði svo með góðu skoti upp í markhornið. Liðin sóttu til skiptis á þessum tímapunkti en Esju menn náðu hröðum sóknum og komust trekk í trekk upp að marki Víkinga á meðan minna flæði var í leik Víkinga. Esja komst svo yfir fyrir lok fyrstu lotu þegar Sturla skoraði sitt annað mark með góðu skoti yfir öxl Retts í markinu en Víkingar gerðu sig seka um mistök í varnarleiknum og Esja fór því með 1:2 forystu til búningsklefa eftir fyrsta leikhluta.
Víkingar komu betur undirbúnir inn í aðra lotunna og létu finna meira fyrir sér og sóknarleikurinn gekk betur. Um miðja lotuna lentu Víkingar í refsivandræðum en þeir fengu fjóra tveggja mínútna dóma á stuttum kafla en náðu þó að standa þá af sér. Esjumenn náðu ekki að nýta liðsmuninn en hvorugu liðinu tókst að skora í lotunni.
Lið Esju náðu nokkrum góðum sóknum í upphafi þriðju lotu og virtust staðráðnir í að landa sigri í gryfju norðanmanna en eftir nokkurra mínútna leik fór þó að draga af þeim enda höfðu þeir spilað á tveimur línum allann leikinn og Víkingar gengu á lagið og tóku öll völd á vellinum. Þegar 12 mínútur lifðu leiks skoraði Ingólfur Tryggvason frábært mark fyrir Víkinga með bylmingskoti frá bláu línunni rétt undir þverslánna. Þetta var fyrsta mark Ingólfs í vetur og gat varla komið á betri tímapunkti. Víkingar sóttu án afláts síðustu 10 mínútur leiksins og 5 mínútum fyrir leikslok skoraði svo Ingþór Árnason sigurmarkið af harðfylgi framan við mark Esju eftir uppkast en Ingþór sem hefur verið einn besti varnarmaður Víkinga í vetur spilaði sem sóknarmaður í leiknum. Esjumenn fengu tvo refsidóma í kjölfarið og náðu því ekki að tefla sigri Víkinga í hættu en segja má að Víkingar hafi sloppið með skrekkinn í þetta sinn. Esjumenn voru mjög nálægt því að stela stigum en náðu ekki að halda dampi út leikinn.
Næsti leikur, Víkingar vs SR í Skautahöllinni á Akureyri laugardaginn 7. mars verður því sannkallaður stórleikur eins og allir leikir úr þessu. Nú byrjar fjörið fyrir alvöru og mikilvægt að hinir sönnu Víkingar mæti til leiks en þeir hafa síður en svo verið sannfærandi upp á síðkastið á meðan SR hefur unnið sex leiki í röð. Leikurinn á laugardag hefst kl 16.30. Það lið sem sigrar verður Deildarmeistari og mun eiga heimaleik í fyrstu tveimur leikjum úrslitakeppninnar en hún hefst samkvæmt mótaskránni á vef IHI mánudaginn 16. mars.
Eins og venjulega á Akureyri var leikurinn sendur út á SA TV og er kominn upp á vimeo og hægt að skoða hér.