Karfan er tóm.
SA Víkingar ferðuðust til Riga í Lettlandi í gær og hefja leik í 3. umferð Evrópukeppninnar á morgun þegar liðið mætir heimaliðinu Kurbads Riga. Leikurinn hefst kl. 16.30 á íslenskum tíma og verður eflaust sýndur á netmiðlum en slóðinn á leikinn kemur á heimasíðuna á morgun. Liðið mætir svo HC Donbass frá Úkraníu á laugardag kl. 11.00 og Txuri-Urdin San Sebastian á sunnudag kl. 11.00.
Ferðalagið hjá liðinu til Lettlands í gær gekk áfallalaust fyrir sig og móttökurnar í Lettlandi hafa verið afar góðar. Allur aðbúnaður er eins og hann gerist bestur enda er íshokkí þjóðaríþrótt Letta og gestrisnin þeim í blóð borin. Liðið gistir á glæsilegu hóteli í miðbæ Riga og spilar leikina í splunkunýrri höll í einkaeigu heimaliðsins Kurbads Riga. Mikill undirbúningur var í gangi í höllinni í dag áður en Víkingar tóku ísæfingu en verið var að æfa ljósasýninguna og koma upp sjónvarpsmyndavélum fyrir leikinn á morgun. Leikurinn er greinilega stórmál hér í hér í Lettlandi þar sem auglýsingar hanga um alla borg og sjónvarpsmyndavélar á leikmönnum liðsins í dag svo sviðið er aðeins stærra en Víkingar eiga að venjast. Hárfagri Bandaríkjadrengurinn hann Jordan Steger kom til móts við hópinn í gær en hann þarf ekki mikið að kynna en tilkoma hans eru góðar fréttir fyrir Víkinga. Jordan kemur einnig til með að spila með liðinu í vetur og aðstoða við þjálfun yngri flokka líkt og áður. Þá mun finnskur leikmaður að nafni Marcus Laine koma til móts við liðið á morgun en honum er ætlað að auka breiddina í varnarlínunni en spilar einungis með liðinu í Evrópukeppninni. Marcus er reyndur leikmaður sem á leiki í efstu deild Finnlands en hefur verið án félags í nokkur ár. Pétur Sigurðsson og Matthías Már Stefánsson hafa einnig bæst við hópinn frá því í Búlgaríu en liðið nýtur ekki liðsinnis Rúnars Freys og Einars Grants að þessu sinni vegna meiðsla og anna.
Það er mikil eftirvænting í hópnum og spenna fyrir leiknum á morgun enda verður hokkíið ekki mikið flottara fyrir leikmenn Víkinga og við hvetjum því fólk til að fylgjast með leiknum á morgun og styðja liðið alla leið til Lettlands þó heima sitji. Í upphitun mælum við með skoti úr nýja íþróttaþættinum, Taktíkin á N4, þar sem leikmenn Víkinga þeir Björn Már og Jón Benedikt ræddu um Evrópukeppnina og mótherja liðsins í Lettlandi.