SA Víkingar með sigur á Birninum um helgina

Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)
Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)

SA Víkingar unnu 8-3 sigur á Birninum í Hertz-deild karla um helgina og nældu sér þar í mikilvæg stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninna.  Með sigrinum náðu Víkingar 13 stiga forskoti á Björninn sem er í 3. sæti deildarinnar en Esja er enn þá á toppi deildarinnar, 4 stigum á undan Víkingum en Víkingar eiga 3 leiki til góða til þess að ná Esju að stigum.

Það voru fámennir Bjarnarmenn sem mætu sprækari til leiks á laugardag enda búnir að ná af sér jólasleninu með leik gegn Esju í vikunni á undan á meðan Víkingar komu beint til leiks úr löngu jólafríi. Björninn náði forystunni í leiknum strax á fyrstu mínútu leiksins og nýtu sér sofandi hátt í vörn Víkinga. Rokkstjarnan Rúnar Eff Rúnarsson jafnaði metin skömmu síðar og Jóhann Már Leifsson kom þeim svo yfir um miðja fyrstu lotuna. Bjarnarmenn voru þó ekki af baki dottnir og jöfnuðu metin áður en fyrsta lotan kláraðist.

SA Víkingar tóku völdin á vellinum í annarri lotunni og Jussi Sipponen skoraði fallegt mark snemma lotunnar og Andri Már Mikaelsson bætti svo í forystuna skömmu síðar. Björninn skapaði sér nokkuð af færum í kjölfarið en náðu ekki að koma pekkinum í markið en það gerði hinsvegar Björninn Jakobsson í liði Víkinga sem skoraði 5. mark Víkinga með hnitmiðaðri leðju af bláu línunni og staðan því 5-2 fyrir síðustu lotuna.

Björninn náði að minnka muninn snemma í 3. lotu í 5-3 en Andri Már Mikaelson sá til þess að slökkva vonir Bjarnarins á stigum þegar hann skoraði 6 mark Víkinga. Jordan Steger negldi svo síðustu naglanna í kistu Bjarnarins með tveimur mörkum undir lok leiksins sem endaði 8-3.

Næsti leikur SA Víkinga er 3. febrúar þegar liðið heimsækir Esju heim í Laugardalinn og 6. Febrúar er svo næsti heimaleikur þegar SR-ingar koma í heimsókn.