Karfan er tóm.
SA Víkingar töpuðu fyrsta leik sínum í Hertz deild karla þetta tímabilið þegar þeir mættu SR í miklum markaleik, lokatölu 6-8. SR hafði frumkvæðið í markaskorun lengst af í leiknum en Víkingar náðu að jafna leikinn í þrígang en komust aldrei lengra en það.
SR byrjaði leikinn betur og fengu yfirtölu snemma leiks sem þeir nýttu vel þegar Jan Kolibar fann Kára Guðlaugsson sem laumaðist aftur fyrir varnarmenn SA og kláraði einn gegn markverði SA. SA Víkingar náðu góðri stjórn á leiknum eftir þetta og náðu að jafna metin um miðja lotu þegar Jóhann Már Leifsson stal pekkinum af aftasta varnarmanni SR og setti pökkinn fallega með bakhönd upp í þaknetið úr þröngri stöðu. SA hélt pekkinum áfram ágætlega í sóknarsvæðinu eftir þetta en SR liðið var iðulega hættulegt í skyndisóknum sínum. SR fékk ákjósanlega skyndisókn 2 gegn einum varnarmanni SA og komu skoti á mark og náðu í kjölfarið tveimur fráköstum án þess að varnarmenn SA kæmu nærri og komust í 2-1 og fóru með þá forystu inn í leikhlé.
Önnur lotan hófst svipað og sú fyrsta hafði endað. SA náði góðum sóknarlotum í sóknarsvæðinu en SR liðið spilaði sig betur upp völlinn og fengu góð færi úr skyndisóknum. Fyrsta markið í lotunni skoruðu SR þegar Robbie Sigurðsson kom Styrmi Maack einum gegn markverði SA og hann kláraði vel. Fyrirliðinn Andri Már Mikaelsson minnkaði muninn fyrir Víkinga með góðu langskoti í yfirtölu um miðja lotuna. Orri Blöndal jafnaði svo metin skömmu síðar með góðu skoti eftir að hafa unnið pökkinn af varnarmönnum SR. Bjarki Jóhannesson kom SR aftur yfir þegar hann náði frákasti framan við mark SA en SR fékk eina þrjá tveggja mínútna dóma fyrir lok lotunnar en SA náði ekki að skora úr yfirtölunum.
Þriðja lotan var æsispennandi en SA náði að jafna leikinn snemma lotunnar þegar Sigurður Reynisson stýrði pekkinum snyrtilega í netið í yfirtölu. Styrmir Maack kom SR skömmu síðar yfir með keimlíku marki og því fyrra sem hann skoraði í leiknum en aftur var það Robbie Sigurdsson sem sendi hann einan gegn markverði SA. Strax í kjölfarið jafnaði Jussi Sipponen metin eftir góðan undirbúnig Hafþórs Sigrúnarssonar en markið kveikti vel í leikmönnum Víkingar sem gengu á lagið. SR tók leikhlé skömmu síðar og það virtist virka ágætlega því þegar þrjár mínútur lifðu leiks skoraði Jan Kolibar fallegt mark fyrir SR með góðu langskoti og kom liðinu aftur í bílstjórasætið. SA Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki og það voru SR-ingar sem skoruðu síðasta markið í tómt mark þegar SA hafði skipt sjötta útileikmanninum inná fyrir markmann.
Fyrstu leikur gaf nokkuð góð fyrirheit um hvað koma skal en SA Víkingar spiluðu vel á köflum þrátt fyrir að hafa ekki verið á ís í langan tíma. Sóknarleikurinn gekk vel en svolítill haustbragur var á varnarleiknum hinsvegar. Lið SR virkar einnig sterkt en Richard Tahtinen þjálfari liðsins er okkur góðkunnugur og ef við þekkjum hann rétt þá á lið SR aðeins eftir að styrkjast eftir því sem líður á tímabilið.
Næsti leikur SA Víkinga er gegn Birninum í Egilshöll þriðjudaginn 27. september en næsti heimaleikur er viku síðar, þriðjudaginn 4. október í Skautahöllinni á Akureyri en sá leikur hefst kl 19.30