Sannfærandi 6 - 0 sigur á Birninum

Stefán að skora eitt af fjórum. Ljósmynd Sigurgeir Haraldsson
Stefán að skora eitt af fjórum. Ljósmynd Sigurgeir Haraldsson

Skautafélag Akureyrar tryggði sér sæti úrslitum með öruggum 6 - 0 sigri á Birninum í síðustu viðureign liðanna í vetur í gærkvöldi.  SA liðið fór betur af stað og strax frá upphafi var ljóst hvert var betra liðið á vellinum.  Auk þess sem SA átti góðan leik áttu Bjarnarmenn slæman dag og þá gat þetta aðeins farið á einn veg.

 

Allt liðið spilaði vel og varnarleikurinn var til fyrirmyndar en að öðrum ólöstuðum voru það tveir leikmenn sem stálu senunni í gær kvöldi en það var annars vegar Ómar Smári Skúlason í markinu sem hélt hreinu og náði sér í annað "shut-outið" á tímabilinu, og hins vegar Stefán Hrafnsson sem var með fjarka og var í raun óheppinn að setja ekki fleiri.

Loturnar fóru 3 - 0, 2 - 0 og 1 - 0.  Fyrsta mark leiksins skoraði Stefán Hrafnsson á 4. mínútu leiksins eftir sendingu frá Sigurði Sigurðssyni.  Annað markið kom á 10. mínútu en þar var á ferðinni Hilmar Leifsson frá bláu línunni eftir sendingar frá Sigurði og Rúnari Rúnarssyni.  Hilmar var að spila sinn fyrsta leik sem varnarmaður og það var hreinlega eins og hann hefði aldrei gert neitt annað.  Síðasta mark lotunnar skoraði svo Sigmundur Sveinsson eftir gott gegnumbrot eftir stungusendingu frá Orra Blöndal.

Síðustu þrjú mörk leiksins átti svo Stefán Hrafnsson sem fór mikinn í leiknum og er vonandi að toppa núna á hárréttum tíma á leið inn í úrslitakeppnina.  Eitt markanna skoraði hann óstuddur, en í hinum mörkunum fékk hann aðstoð frá Ingvari Jónssyni og Rúnar Rúnarssyni.

Nú er bara einn leikur eftir hjá okkur í vetur og hann verður um helgina gegn SR fyrir sunnan.  Við þurfum að vinna hann til þess að vinna deildina og tryggja okkur heimaleikjaréttinn í úrslitum.  Hins vegar er sá réttur okkur ekkert gríðarlega mikilvægur því svo virðist sem okkur gangi betur gegn SR í Laugadalnum en hér heima.

Bjarnarmenn eiga veika von um að komast í úrslit en til þess að svo verði þurfum við að vinna SR stórt og þeir sömuleiðis í síðasta leik tímabilsins.  Björninn er þremur stigum á eftir SR auk þess sem 9 mörkum munar á liðunum í markahlutfalli.  Hvernig sem þetta fer þá verður að taka ofan fyrir Bjarnarliðinu eftir frammistöðu þeirra í vetur.  Hefðu þeir byrjað fyrr að bíta frá sér væri staðan önnur í dag.  Þeir fóru hægt af stað en hófu svo mikla sigurgöngu sem gæti með smá heppni enn skilað þeim í úrslit.

Mörk og stoðsendingar

Stefán Hrafnsson 4/0, Rúnar Rúnarsson 0/2, Sigurður Sigurðsson 0/2, Sigmundur Sveinsson 1/0, Hilmar Leifsson 1/0, Orri Blöndal 0/1, Ingvar Jónsson 0/1.