Stórsigur Víkinga á Esju í Laugardal

Úr leik Víkinga - SR fyrr í vetur (mynd: Elvar)
Úr leik Víkinga - SR fyrr í vetur (mynd: Elvar)

Víkingar völtuðu yfir Esju í Laugardal í gærkvöld, lokatölur 12-1. Víkingar voru án Orra Blöndal, Hilmars Leifssonar og Einars Valentine sem eru allir meiddir auk Sigurðar Reynissonar sem er enn fjarverandi. Matthías Már Stefánsson fékk sitt annað tækifæri í byrjunarliðinu og skoraði sitt fyrst mark í meistaraflokki og átti þar að auki mjög góðann leik.

Leikurinn virtist vera í jafnvægi í upphafi leiks og bæði lið náðu ágætis skotum á mark án þess að skapa sér dauðafæri. Fyrsta mark leiksins skoraði Ben Dimarco af löngu færi þegar hann kastaði pekkinum á markið en markvörður Esju virtist misreikna skotið og pökkurinn datt í netið. Á 7. Mínútu fékk Andri Freyr Sverrisson pökkinn bakvið mark Esju og speglaði pekkinum glæsilega að hætti „Gretzky“ í afturenda markvarðarins og inn. Ben Dimarco var svo aftur á ferðinni á 10. mínútu þegar hann skoraði af harðfylgi eftir gegnumbrot og svo aftur þremur mínútum síðar þegar hann skoraði sitt þriðja mark í leiknum með góðu skoti og aðeins 13 mínútur liðnar af leiknum. Hálfri mínútu síðar misstu Esjumenn pökkinn klaufalega í öftustu varnarlínu en Andri Mikaelsson var fyrstu að átta sig og komst einn gegn markverði Esju en Andri kláraði færið örugglega. Jón B. Gíslason skoraði svo með löngu skoti upp í markhornið þar sem mikil traffík var framan við mark Esju. Þá var komið að nýliðanum Matthíasi Má Stefánssyni þegar hann skoraði af miklu harðfylgi af stuttu færi eftir mikla pressu í sóknarsvæðinu. Staðann 7-0 þegar gengið var til búningsherbergja, alveg ótrúleg staða miðað við gang leiksins.

Esjumenn skiptu um markmann í annað sinn í byrjun annarrar lotu en það er sjaldgæft að báðir markmenn liðs eiga jafn slæman dag og raunin var í gær. Önnur lotann spilaðist þó nokkuð álíka þeirri fyrstu en liðin skiptust á að sækja þó Víkingar voru aðeins skeinuhættari í sínum sóknaraðgerðum og Rett Vossler var mjög öruggur í markinu. Ben Dimarco skoraði fyrsta mark lotunnar og sitt fjórða í leiknum með viðstöðulausu skoti af bláu línunni í yfirtölu. Jón B. Gíslason skoraði svo annað mark lotunnar þegar hann pottaði frákasti í markið eftir gott gegnumbrot hjá Ben Dimarco.

Þriðja lotann var nánast formsatriði en hraðinn í leiknum minnkaði til muna og leikskipulag liðanna riðlaðist nokkuð. Víkingar voru þó sterkari aðilinn en fyrsta mark lotunnar var skorað þegar 5 mínútur lifðu leiks en þá skoraði Gunnar Darri Sigurðsson með frábæru skoti upp í vínkilinn eftir undirbúning Matthías Más Stefánssonar unnið hafði pökkinn með mikilli elju og komið honum á Gunnar. Esjumenn skoruðu sitt fyrst og eina mark skömmu síðar þegar þeir náðu góðri skyndisókn og með harðfylgi tókst þeim loksins að sjá við Rett Vossler í marki Víkinga. Rúnar Freyr Rúnarsson skoraði svo elleft mark Víkinga og strax í næstu sókn skoraði sama línan aftur en þá var á ferðinni Andri Mikaelsson sem lagði pökkinn í opið mark eftir fallegann og óeigingjarnan undirbúning Jóhanns Leifssonar. Lokastaðan, 12-1.

Frábær sigur hjá Víkingum sem gerðu sér varla vonir um neitt annað en erfiðan leik þar sem Esjumenn vantaði stigin sárlega í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Það er því ótrúlegt að liðið hafi verið jafn andlaust og raun var vitni þó lokatölur segi ekki allt um gang leiksins en skelfileg byrjun þeirra var mikið reiðarslag. Víkingar áttu ágætan dag og allir leikmenn liðsins spiluðu vel og má þá helst nefna Matthías Má Stefánsson sem var grimmur og öruggur í sínum leik, Ben Dimarco sem raðaði inn mörkunum og var sífellt ógnandi, Rett Vossler átti mjög góðann dag, Gunnar Darri Sigurðsson var sívinnandi og átti mjög góðann dag og eins Ingþór Árnason sem margar sóknir Esju enduðu á og þar að auki áberandi í sókninni. Næsti leikur Víkinga er á heimavelli næstkomandi laugardag en þá tekur liðið á móti Birninum í Skautahöllinni á Akureyri.