Tveir leikir gegn SR í dag

BB verður á kirkjubekk í dag - ekki varamannabekk.
BB verður á kirkjubekk í dag - ekki varamannabekk.


Kvennalið SA og Jötnar héldu suður á bóginn í morgun og mæta SR-ingum í leikjum kvöldsins í Laugardalnum. Breytt fyrirkomulag í meistaraflokki kvenna. Nokkur ný nöfn hjá Jötnum.

Jötnar leika sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu þetta tímabilið þegar þeir mæta SR í Laugardalnum og hefst sá leikur kl. 17.30. Þegar þetta er ritað eru leikmannalistarnir ekki komnir á vef ÍHÍ, en væntanlega fáum við að sjá einhver ný nöfn í Jötnahópnum á þessu tímabili. Að loknum karlaleiknum mætast síðan kvennalið SA og SR. 

Breytt fyrirkomulag
SA sendir eitt lið til keppni á Íslandsmótinu í mfl. kvenna þennan veturinn, en ákveðið var að gera tilraun og breyta fyrirkomulaginu frá fyrra keppnistímabili. Eins og lesendur muna var lítil spenna í mótinu í fyrra og yfirburðir SA-liðanna miklir.

SA-liðið verður nú að uppistöðu skipað leikmönnum sem eru utan æfingahóps landsliðsins, en sá hópur var valinn nýlega eftir æfingabúðir á Akureyri. SA-liðið verður þannig blanda af eldri leikmönnum sem ekki eru í landsliðshópnum og svo yngri stelpum sem eru að koma upp úr yngriflokkastarfinu hjá félaginu. Liðið má hins vegar nota fjóra leikmenn úr æfingahópi landsliðsins í hverjum leik.

Áhersla á erfiðari verkefni fyrir landsliðshópinn
Á móti þessu verður síðan lögð áhersla á æfingabúðir og leiki gegn erlendum liðum fyrir landsliðshópinn þannig að þar fá leikmenn erfiðari verkefni og meiri áskorun en að spila ójafna deildarleiki eins og margir þeirra spiluðust á liðnu keppnistímabili.

Þegar þetta er ritað hefur hvorki verið gengið frá ráðningu á þjálfara kvennaliðs SA né landsliðsþjálfara kvenna, en unnið er að því að leysa þau mál og fást vonandi fréttir af því fljótlega.

Hér eru tenglar á meiri upplýsingar:

Leikmannalistar dagsins

Æfingahópur kvennalandsliðsins

Leikjadagskrá kvenna

Mótaskráin í heild

Æfingahópur landsliðsins
Þessar eru frá SA í æfingahópi landsliðsins: Arndís Eggerz Sigurðardóttir, Birna Baldursdóttir, Diljá Sif Björgvinsdóttir, Guðrún Blöndal, Guðrún Marín Viðarsdóttir, Hrund Thorlacius, Jónína Margrét Guðbjartsdóttir, Linda Brá Sveinsdóttir, Silja Rún Gunnlaugsdóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir, Sunna Björgvinsdóttir og Thelma María Guðmundsdóttir. Þær Diljá Sif, Silvía Rán og Sunna hafa ekki verið í landsliðshópnum áður. Silvía og Sunna eru raunar ekki nógu gamlar til að spila með landsliðinu en eru í hópnum til að fá verkefni sem hæfir getu þeirra og hæfileikum.

Hættar, í fríi, komnar úr fríi, ekki á fullu...
Einhverjar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá liðnum vetri. Markvörðurinn Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir hélt til náms í Reykjavík og spilar nú með Birninum. Íris Hafberg á við meiðsli að stríða og óvíst með framhaldið á hennar hokkíferli. Védís Áslaug Beck býr nú í Noregi og spilar íshokkí þar. Sarah Smiley er í barnsburðarleyfi frá hokkíiðkun, en Eva María Karvelsdóttir hefur hafið æfingar aftur eftir barnsburðarleyfi. Einhverjar munu hugsanlega taka minna á en undanfarin ár, vera með en ekki alveg af fullum krafti og einhverjar skila sér seinna úr sumarleyfi en aðrar. Síðast en ekki síst má nefna íþróttamann SA, fyrirliða Ásynja og landsliðsfyrirliðann Önnu Sonju Ágústsdóttur, en hún ákvað að taka sér frí frá hokkíinu vegna anna við bústörf og nám – og vonandi er það aðeins leyfi.