Tveir sigrar í gær

Sarah fór fyrir Valkyrjunum og skoraði nokkur mörk
Sarah fór fyrir Valkyrjunum og skoraði nokkur mörk

Í gærkvöldi spiluðu Jötnar og Valkyrjur við Skautafélag Reykjavíkur.  Þetta var um margt mjög merkilegt kvöld því þarna voru tvö ný lið kynnt til sögunnar.  Skautafélag Reykjavíkur teflir fram kvennaliði að nýju eftir langt hlé og er það sérstak ánægjuefni fyrir íslenskt kvennahokkí og nú eru liðin orðin fjögur með Ynjunum.

Hitt nýja liðið, Jötnarnir frá Akureyri, var jafnframt að spila sinn fyrsta leik og í því liði voru nokkrir leikmenn að spila sinn fyrsta leik í meistaraflokki.   Af yngri leikmönnum voru Sigurður Reynisson og Ingþór Árnason að spila sinn fyrsta meistaraflokkleik, en þeir spila báðir í 3.flokki.  Einar Eyland fékk eldskírn sína í markinu en hann hefur áður verið á bekknum en ekki tekið heilan leik.  Af eldri leikmönnum voru tveir Old-boys leikmenn að spila sína fyrstu leiki, þeir Gunnar Jónsson fæddur 1985 og Bergur Jónsson fæddur 1971, en báðir þessir leikmenn æfðu þó hér á árum áður.  Geir Borgar Geirsson reimaði á sig skautana að nýju og spilaði með en Geiri er þar með orðinn elsti leikmaður deildarinnar, fæddur 1966.  Hann spilaði síðast með Narfa frá Hrísey.

 Hið nýja lið Jötnanna gerði sér lítið fyrir og bar sigurorð af Skautafélagi Reykjavíkur í sínum fyrsta leik, 6 – 4.  Markahæstur var Helgi LeCunt Gunnlaugsson með tvö mörk.  Helgi ætlaði að hengja upp skautana fyrir þetta tímabil en ákvað að halda áfram þegar Jötnarnir voru settir á laggirnar.  Leikurinn var mjög jafn fram í síðustu lotu þegar Jötnarnir náðu forystunni og héldu henni til loka.  Góð byrjun hjá nýju liði.

 

Strax á eftir Jötnaleiknum spiluðu Valkyrjur við Skautafélag Reykjavíkur.  Í lið SR er Margrét Vilhjálmsdóttir í markinu en hún hefur verið aðalmarkvörður SA síðustu ár.  Það er skemmst frá því að segja að Valkyrjurnar unnu leikinn með 12 mörkum gegn engu en þrátt fyrir það var um mjög að ræða mjög góðan árangur hjá hinu nýja liði.  Liðið er nýtt og það er á brattan að sækja gegn hinum liðunum sem hafa verið í þróun í rúman áratug, en þetta kemur mjög fjótt og nú er mikilvægt að halda út þrátt fyrir tapleiki í byrjun. 

Þegar þetta er skrifað hafa leikskýrslur ekki skilað sér í hús en tölulegum upplýsingum verður mögulega bætt við þegar þær berast.