Umdeildur dómur og Björninn vann í framlengingu

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (19.03.2013)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (19.03.2013)


Fyrsti leikur tímabilsins í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í íshokkí varð æsispennandi og fór í framlengingu. Umdeildur dómur þegar 12 sekúndur voru eftir af framlengingunni skipti sköpum og Bjarnarmenn sigruðu.

Þegar horft var á leikskýrslurnar fyrir leik – þar sem Víkingar voru með 12 menn á skýrslu en Björninn 20 menn – bjuggust menn kannski ekki við miklu. En Víkingar sýndu það enn einu sinni hvers þeir eru megnugir. Leikurinn fór í framlengingu þar sem Bjarnarmenn skoruðu sigurmarkið þegar 12 sekúndur voru eftir og þá í kjölfarið á mjög umdeildum dómi.

Eins og fram kom í umfjöllun hér á heimasíðunni fyrir leikinn er leikmannahópurinn hjá Víkingum frekar þunnskipaður svona í upphafi leiktíðar – en í upptalningunni í gær vantaði að þeir Sigurður Reynisson og Ingþór Árnason eru fjarverandi og spiluðu því ekki með liðinu í gærkvöldi. Þá söknuðu Víkingar einnig Stefáns Hrafnssonar, auk þess sem Björn Már Jakobsson var ekki heill heilsu í leiknum. Áhorfendur spurðu líka hver annan á leiknum í gær: Hvernig verður þetta þegar við verðum með fullskipað lið úr því að þessi leikur fór í framlengingu?

Björninn komst yfir í fyrsta leikhluta með marki Hrólfs Gíslasonar, en Gunnar Darri Sigurðsson jafnaði og Orri Blöndal kom Víkingum í 2-1. Orri bætti svo við marki í upphafi annars leikhluta og staðan orðin 3-1. Þá komu þrjú mörk frá Bjarnarmönnum og staðan 3-4 eftir annan leikhluta og svo 3-5 undir miðjan þriðja leikhluta

Þrátt fyrir fámennari leikmannahóp náðu Víkingar að berjast allt til enda og jöfnuðu leikinn, fyrst skoraði Sigurður Óli Árnason fjórða markið og svo jafnaði Ingvar Þór Jónsson leikinn í 5-5 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Björninn náði ekki að svara í þriðju lotunni og því var gripið til framlengingar.

Í framlengingunni fengu bæði liðin færi til að klára leikinn, en þegar stutt var eftir af átti sér stað afdrifaríkt atvik. Víkingar voru þá á sínu varnarsvæði og Ingvar með pökkinn, skaut honum hátt upp í loftið og fram á við – og þá gall við flaut. Dómarar leiksins töldu pökkinn hafa farið útfyrir leiksvæðið og dæmdu Ingvar í tveggja mínútna refsingu fyrir að tefja leikinn (Delaying the Game). Fréttaritari var skammt frá þar sem þetta gerðist og virtist pökkurinn hafa farið uppfyrir ljósalínuna, en án þess að snerta ljós eða annan búnað. En það hefði raunar ekki átt að skipta máli hversu hátt pökkurinn fór því leiksvæðið er "óendanlegt" upp á við. 

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða reglu 554 c í reglubókinni og skýringar við hana (sjá mynd). Vissulega ber að refsa mönnum fyrir að skjóta pökknum út af leiksvæðinu úr eigin varnarsvæði að tilteknum skilyrðum uppfylltum – en í skýringum kemur skýrt fram að leiksvæðið er „óendanlegt“ upp á við. Leiksvæðið endar ekki við ljósalínuna, eða eins og segir í reglunni: „The „playing area“ in this rule means the surface surrounded by the boards and protective glass. The height of the playing area is infinity.“ (Leturbreyting fréttaritara).

Brottrekstur Ingvars hafði að sjálfsögðu afgerandi áhrif á leikinn. Í framlengingunni spila fjórir á fjóra, þannig að við uppkastið eftir brottrekstur Ingvars voru Bjarnarmenn með fjóra útileikmenn á móti þremur Víkingum og náðu að skora nánast beint eftir uppkastið. Úrslitin ráðin og Björninn fór með sigur af hólmi eftir framlengingu – en þegar upp er staðið verður að hrósa Víkingum fyrir að hafa þó náð aukastiginu og að hafa átt jafna möguleika á að hirða sigurinn í framlengingunni.

Vonandi verður það þetta aukastig Víkinga sem skiptir máli þegar upp er staðið – ekki hin töpuðu stig vegna hins umdeilda dóms.

Víkingar
Mörk/stoðsendingar
Orri Blöndal 2/0
Gunnar Darri Sigurðsson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Sigurður Óli Árnason 1/0
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Jóhann Már Leifsson 0/1
Varin skot: 27
Refsimínútur: 10

Björninn
Mörk/stoðsendingar
Trausti Bergmann 2/0
Daniel Kolar 1/0
Hrólfur Gíslason 1/0
Matthías Sigurðsson 1/0
Lars Foder 0/2
Ólafur Björnsson 1/0
Andri Helgason 0/1
Brynjar Bergmann 0/1
Óli Gunnarsson 0/1
Varin skot: 18
Refsimínútur: 8

Beina atvikalýsingu má sjá hér.

Næstu leikir okkar liða verða í Laugardalnum:
Laugardagur 7. september, kl. 18.30, mfl. karla: SR - Jötnar
Laugardagur 7. september, kl. 21.30, mfl. kvenna: SR - SA