Karfan er tóm.
Föstudaginn 8. mars - á alþjóðlegum baráttudegi kvenna - fer fram úrslitaleikur Íslandsmótsins í íshokkí
kvenna. Leikurinn fer fram í Skautahöllinni á Akureyri og hefst kl. 20.00 – ef veður og færð leyfa.
Vakin er athygli á að skautadiskó fellur niður að þessu sinni vegna leiksins.
Ákveðið var að aðeins skyldi spilaður einn úrslitaleikur um titilinn að þessu sinni, ekki leikjasería eins og undanfarin ár. Þetta var gert með hliðsjón af stöðunni eins og hún hefur verið í deildarkeppni kvenna í vetur. Eins og hokkíáhugafólk veit hafa yfirburðir Akureyrarliðanna - Ásynja og Ynja - verið miklir í vetur og hvað þá þegar úrval úr þeim tveimur liðum kemur saman í eitt lið undir merkjum SA. Ásynjur og Ynjur unnu alla leiki sína gegn sunnanliðunum, en spiluðu síðan jafna og spennandi baráttuleiki sín á milli. Á vef ÍHÍ má sjá lokastöðuna í deildinni.
Samhliða þessari breytingu var ákveðið að nýta tækifærið og setja upp hokkímót kvenna á laugardaginn, 9. mars, þar sem flestar af fremstu íshokkíkonum landsins yrðu hvort eð er á Akureyri. Mótið verður haldið til minningar um Garðar Jónasson. Nánar verður sagt frá mótinu og dagskrá þess í annarri frétt.
Hokkíáhugafólk er hvatt til að verja einni skemmtilegri kvöldstund í Skautahöllinni, koma og hvetja liðið okkar, skemmta sér yfir frábærum tilþrifum á svellinu.
Sjáumst í Skautahöllinni kl. 20.00 föstudagskvöldið 8. mars.