Karfan er tóm.
SA Víkingar voru lagðir af Esju í toppslagi deildarinnar í gærkvöld, lokatölur 8-4. Esja náði þar með góðri forystu á toppi deildarinnar en Esja hefur það sem af er tímabili aðeins tapað einum leik.
Víkingar fengu sannkallaða draumabyrjun þar sem Víkingar náðu skyndisókn strax í upphafi leiks sem Jussi Sipponen kláraði af öryggi og kom Víkingum í 1-0 eftir aðeins 20 sekúndur. Esja hafði frumkvæði í leiknum eftir markið og náðu að jafna leikinn eftir um 7 mínútur með marki frá gamla SA manninum Andra Frey Sverrisyni.
Í byrjun annarar lotu komst Brynjar Bergmann leikmaður Esju í gegnum vörn Víkinga og kom pekkinum fram hjá Steve í markinu og Esja komið í 2-1. SA Víkingar náðu þó að jafna metin í yfirtölu en þar var á ferðinni Jussi Sipponen eftir góðann undirbúning Andra Más Mikaelssonar. Esja náði aftur forystunni þegar Róbert Pálsson kom úr refsiboxinu og fékk sendingu inn fyrir vörn SA og kláraði færið snyrtilega. SA Víkingar jöfnuðu skömmu síðar þegar Hafþór Andri Sigrúnarson sendi pökkinn á lofti fram fyrir markið en pökkurinn skoppaði af leikmanni Esju og í markið. Síðari hluti annarrar lotu einkenndist af mörgum refsingum og Esja sótti grimmt í yfirtölunni en náðu ekki að skora. Víkingar fengu vítaskot undir lok lotunnar en Jón Benedikt Gíslason náði ekki að nýta það svo staðan var 3-3 fyrir síðustu lotuna.
Esja var fyrst til að skora í þriðju lotu þar sem Brynjar Bergmann náði frákasti framan við mark Víkinga. Esja komst í skyndisókn stuttu síðar þar sem Pétur Maack skaut föstu skoti í gegnum vörn SA og kom Esju í 5-3. Ivan Reitmayer minnkaði muninn í eitt mark fyrir SA með snöggu skoti utan af kanti en markmaður Esju var ekki viðbúin. Esja var þó ekki á þeim buxunum að hleypa Víkingum nær en Ólafur Björnsson skoraði sjötta mark Esju með bylmingskoti undir þverslánna þegar um 5 mínútur lifðu leiks. SA Víkingar virtust missa tökin við þetta og Esja gekk á lagið og skoraði tvö mörk til viðbótar en þar var á ferðinni Andri Freyr Sverrison í bæði skiptin og náði þar með þrennu í sínum fyrsta leik á gamla heimavellinum.
Nú tekur við tveggja vikna leikpása hjá Víkingum en næsti leikur er á heimavelli gegn SR þriðjudaginn 13. október. Hér má sjá beina textalýsingu á mbl.is af leiknum í gær. Hér er viðtal við Ingvar Jónsson eftir leikinn og hér viðtal við Andra Frey.