Karfan er tóm.
Leikurinn fór vel af stað og liðin skiptust á að sækja en strax á fyrstu mínútum leiksins skoraði Eyfirðingurinn Steinar Grettisson fyrsta mark leiksins eftir varnarmistök Bjarnarmanna. Gestgjafarnir jöfnuðu leikinn skömmu síðar í „power play“ en þar var á ferðinni hinn hárprúði finnski varnarmaður Mika Moilanen. Þetta reyndist eina mark þeirra í leiknum og eftirleikurinn var Víkinganna. Áður en fyrstu lotu lauk setti Leðjubjörn Jakobsson sigurmarkið sem líkt og mark Bjarnarmanna, kom í „power play“.
Í 2.lotu réðu Víkingar lögum og lofum á svellinu og bættu við þremur mörkum frá hinum barnunga Sigurði Reynissyni, Sigmundi Sveinssyni og Andra Sverrissyni. Leikurinn jafnaðist aftur í síðustu lotunni en síðasta markið í leiknum skoraði Stefán Hrafnsson og innsiglaði glæsilegan 6 – 1 sigur á sterku Bjarnarliði sem frumsýndu í gær nýjar keppnistreyjur.
Víkingar léku vel en geta gert miklu betur. Nokkur heppni var með liðinu á sama tíma og lítið gekk gestgjöfunum í haginn. Það var jákvætt að 6 leikmenn skyldu skora mörkin 6 og allir fengu að spila. Yngsti varnarmaður liðsins, Ingþór Árnason átti bráðskemmtilega tæklingu undir lok leiks þegar sóknarmaður Bjarnarins Birgir Hansen fór heilt heljarstökk yfir hann á bláu línunni. Engum varð meint af en úr varð nokkurt sjónarspil sem gaman væri að sjá í endursýningu.
Víkingar skríða nú hægt og rólega upp stigatöfluna eftir slæma byrjun. Ef áfram heldur sem horfir stefnir í jafna og spennandi keppni efstu þriggja liðinna um sæti í úrslitum.
Meðfylgjandi mynd tók Ásgrímur Ágústsson fyrr í haust, en á henni má sjá Lars Foder á leið inn í markið á eftir pekkinum.