Karfan er tóm.
Í kvöld mættust í Skautahöllinni á Akureyri í býsna skemmtilegum leik Víkingar og Jötnar. Þeir fyrrnefndu voru sterkari aðilinn að þessu sinni en Jötnar voru óvenju sprækir og gerðu oft harða hríð að marki Víkinga. Jötnar skoruðu alls 4 mörk, en þar voru að verki Helgi LeCunt með tvö mörk, Elvar Jónsteinsson með eitt og Sigmundur Sveinsson með eitt.
Annað markið hans Helga var í skrautlegi kantinum því eftir að hafa komist einn gegn tók hann skot sem geigaði og fór í rammann fyrir aftan, þaðan til baka í Ómar markmann og inni í markið. Sjálfsmark hjá Ómari, en mark hjá LeCunt engu að síður. Markið hans Elvar var jöfnunarmark í 1 - 1 en það kom eftir að hann pressaði vel á Ingvar Jónsson, stal af honum pekkinum í krísunni og gólfsveiflaði pekkinum í skeytin fram hjá Ómari. Það er skemmst frá því að segja að Ómari var skipt út fyrir Veigar Árnason um miðbik leiksins.
Helgi var nálægt því að fullkomna þrennuna skömmu fyrir leikslok eftir að hafa komist aftur einn í gegn, í þetta skiptið hitti hann markið af eintómri tilviljun en Veigar sá við honum og bjargaði á marklínu.
Nýr leikmaður lét sjá sig hjá Jötnunum í kvöld, enginn annar en Björn Davíðsson, betur þekktur sem Bubbi seðill. Bubbi hefur ekki gert garðinn frægan í meistaraflokki í gegnum árin en hann á að baki nokkra landsleiki með unglingalandsliðum. Segja má að innkoma hans hafi verið nokkuð sterk því hann átti stoðsendingu á mark Sigmundar sveitamanns og setti Leifssoninn Hilmar á herðablöðin í einni skyndisókninni.
Ýmislegt má kannski segja um þá tilraun okkar að halda úti tveimur liðum í meistaraflokki bæði í karla og kvennaflokki, en eitt er þó víst að þetta skapar tækifæri og ístíma fyrir miklu fleiri leikmenn. Okkur reiknast nú til að 42 leikmenn hafi keppt meistaraflokkleiki fyrir Skautafélag Akureyrar í karlaflokki á þessu tímabili, ýmist fyrir Jötna eða Víkinga. Það verður að teljast mikil breidd að geta gefið á fimmta tug leikmanna tækifæri til þess að spila í meistaraflokki. Vissulega er þessi tilraun ekki hnökralaus en kostirnir eru fleiri en gallarnir. Það er mikilvægt að taka þessu brölti með jákvæðu og opnu hugarfari því fjölgun liða og fjölgun leikmanna í meistaraflokkum bæði karla og kvenna er grundvallaratriði fyrir framþróun íþróttarinnar hér á landi.