SA Íslandsmeistarar í karlaflokki
Í gærkvöldi tryggði Skautafélag Akureyrar sér 14. Íslandsmeistaratitilinn á 19 árum með góðum 6 – 2 sigri á Birninum fyrir fullri höll áhorfenda. Það var gríðarleg spenna í loftinu fyrir þennan leik enda voru fyrstu fjórir leikir liðanna mjög jafnir og spennandi. Þessi leikur fór eins af stað og allir hinir, Bjarnarmenn riðu á vaðið og náðu forystu snemma leiks er þeir nýttu sér tækifæri þegar þeir voru einum fleiri.
Jóhann Leifsson gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn skömmu síðar en mörkin urðu ekki fleiri að þessu sinni. 2. lota réð úrslitum þar sem SA liðið stjórnaði leiknum og allt gekk upp bæði í sókn og vörn. Lotan vannst 3 – 0 með mörkum frá Gunnari Darra Sigurðssyni, Andra Sverrissyni og Stefáni Hrafnssyni og þarna náðist mikilvægt forskot sem var þægilegt veganesti inn í 3. lotuna.