20.11.2022
SA Víkingar unnu 4-0 sigur á Fjölni í leik helgarinnar í Hertz-deild karla og léku glimrandi vel á löngum köflum. Það tók 34 mínútur fyrir Víkinga að brjóta á aftur sterkan varnarmúr Fjölnis en eftir það brustu varnir og mörkin komu á færibandi þar sem Unnar Rúnarsson skoraði 2 mörk, Andri Már Mikaelsson og Heiðar Jóhannsson sitthvort markið. SA Víkingar skutu 48 skotum á mark á móti 20 skotum Fjölnis og Jakob Jóhannsson hélt markinu hreinu hjá Víkingum. SA Víkingar styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar enn frekar og mæta næst Skautafélagi Reykjavíkur í Laugardalnum 2. desember.
17.11.2022
SA Víkingar taka á móti Fjölni í Hertz-deild karla á laugardag í Skautahöllinni á Akureyri. SA Víkingar eru eftstir í deildinni með 15 stig og Fjölnir er í þriðja sæti deildarinnar með 4 stig. Leikurinn hefst kl. 16:45 á laugardag en miðaverð er 1000 kr. og frítt inn fyrir 16 ára og yngri. Forsala miða er hafin í miðasöluappinu Stubb.
12.11.2022
Magnaður sigur hjá strákunum í Grafarvogi í kvöld á vel spilandi Fjölnisliði en Fjölnir var með eins marks forystu þegar 7 mínútur lifðu leiks en fyrirliðinn Andri Mikaelsson jafnaði leikinn á 56 mínútu og Heiðar Jóhannsson skoraði svo sigurmarkið mínútur síðar. SA Víkingar voru með 37 skot á mark í leiknum gegn 27 skotum Fjölnis og Róbert Steingrímsson var með 85,2% markvörslu í marki Víkinga.
11.11.2022
Íslenska U18 landslið kvenna í íshokkí tekur þátt í 4 Nations móti í Poznan í Póllandi nú yfir helgina. Mótið er alþjóðlegt æfingamót en auk Íslands eru þáttökuþjóðir Spánn, Bretland og Póland og er þetta í þriðja sinn sem liðið tekur þátt í þessu sterka móti. Ísland mætir heimaliðinu Póllandi í dag en leikurinn hefst kl. 15.00 á íslenskum tíma en öllum leikjunum verður streymt í gegnum facebook síðu Poznan hockey. Við eigum 13 fulltrúa í liðinu að þessu sinni sem við fylgjum stolt með og sendum hlýja strauma til liðsins alla leið til Póllands. Áfram Ísland!
10.11.2022
Fyrirlesturinn Hið ósýnilega afl verður þann 17. nóvember kl. 17:30 í Háskólanum.
Fyrirlesturinn er fyrir íþróttaiðkendur 12 ára og eldri, foreldra, þjálfara, stjórnendur og aðra áhugasama.
27.10.2022
SA Víkingar taka á móti SR í toppslag Hertz-deild karla á laugardag í Skautahöllinni á Akureyri. SA Víkingar eru eftstir í deildinni með 9 stig en SR er í öðru sæti með 8 stig. Leikurinn hefst kl. 16:45 á laugardag en miðaverð er 1000 kr. og frítt inn fyrir 16 ára og yngri. Forsala miða er hafin í miðasöluappinu Stubb.
15.10.2022
SA Víkingar svöruðu tapinu um síðustu helgi með öðrum stórsigri á heimavelli þegar liðið lagið toppliði SR 6-1 í Hertz-deild karla í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. SA Víkingar voru með 39 skot á mark í leiknum á móti 34 skotum SR. Matthías Már Stefánsson var markahæstur SA Víkinga í kvöld með tvö mörk og Jakob Jóhannesson var með 97% markvörslu í markinu. SA Víkingar lyfta sér upp í 2. sæti Hertz-deildarinnar með sigrinum.
14.10.2022
Listhlaupadeild Skautafélags Akureyrar kynnir nýtt námskeið í skautahlaupi. Námskeiðið hefst 26. október og stendur í 5 vikur en tímarnir verða á miðvikudögum kl. 20.20-21.05. Það er frítt að prufa þann 26. en verð fyrir allt námskeiðið er 7.500 kr. Allur búnaður er á staðnum en æskilegur klæðnaður eru íþróttaföt, vettlingar og húfa/buff undir hjálminn. Skráning og upplýsingar sendast á formadur@listhlaup.is
13.10.2022
SA Víkingar taka á móti SR í Hertz-deild karla á laugardag á heimavelli í Skautahöllinni á Akureyri. Liðin mætust í Laugardal um síðustu helgi í hörku hokkíleik þar sem SR hafði betur en SA Víkingar ætla sér að jafna metin um helgina. Leikurinn hefst kl. 16:45 á laugardag en miðaverð er 1000 kr. og frítt inn fyrir 16 ára og yngri. Forsala miða er hafin í miðasöluappinu Stubb.
04.10.2022
SA Víkingar unnu virkilega sannfærandi sigur með góðri frammistöðu í opnunarleik tímabilsins í Hertz-deild karla. SA Víkingar snéru heim úr Evrópukeppninni á mánudag en það var hvergi Evrópuþreytu að sjá í leik SA Víkinga sem skoruðu 7 mörk áður en Fjölnismenn náðu að svara með einu marki undir lok leiksins. SA Víkingar voru með 44 skot í leiknum á móti 23 skotum Fjölnis og Róbert Steingrímsson varði 22 skot í marki Víkinga sem er 95,7 % markvarsla. Frabær byrjun á tímabilinu hjá Víkingum en næst eiga Víkinga leik í Laugardal um næstu helgi þegar liðið sækir SR heim.