27.03.2025
Iðkendur SA í íshokkí og listskautum luku á mánudag við gerð samskiptasáttmála fyrir iðkendur og félagsmenn Skautafélags Akureyrar. Sáttmálinn er leiðarvísir til að viðhalda og styrkja jákvæða menningu innan félagsins. Sáttmálinn er afurð vinnu sem félagið fór af stað með í haust þar sem markmiðið er að auka umburðarlyndi og almenna virðingu innan félagsins í forvarnarskyni gegn hatursorðræðu, fordómum og ofbeldi.
16.03.2025
Við bjóðum uppá 4 vikna skautanámskeið sem hentar öllum sem vilja læra á skauta sér til heilsubótar eða auka þá færni sem er nú þegar til staðar. Námskeiðið er fyrir alla aldurshópa og er kennt á allar gerðir skauta - listskauta - hokkískauta og skautahlaups. Námskeiðið er kennt á miðvikudagskvöldum kl. 20:20-21:05 en fyrsti tíminn er 19. Mars og verð er 10.000 kr. fyrir námskeiðið.
08.03.2025
Þrjár stúlkur frá LSA, auk skautara frá SR og Fjölni eru nú staddar í Osló þar sem íslenska landsliðið tekur þátt á Sonja Heine Trophy. Helga Mey (basic Novice) hóf keppni á fimmtudag og náði 17. sæti af 47 keppendum sem er glæsilegur árangur hjá henni. Ylfa Rún (Advanced Novice) hóf keppni í gær með stutta prógrammið og er sem stendur í 21 sæti með 24.38 stig að loknum fyrri keppnisdegi. Ylfa Rún heldur áfram keppni í dag klukkan 19:10 með frjálsa prógrammið. Sædís Heba hefur leik í Junior síðar í dag en upphitun í hennar hóp hefst kl. 10:57 og röðin kemur svo að henni kl. 11:14. Við fylgjumst með þeim úr fjarska og sendum þeim hlýjar kveðjur og ósk um gott gengi.
27.02.2025
Um helgina dagana 28. febrúar - 2. mars fer Vormót ÍSS fram hjá okkur hér í Skautahöllinni á Akureyri. Rúmlega 100 keppendur eru skráðir til leiks í ólíkum keppnislínum innan sambandsins en keppt í keppnislínu félaganna og Special Olympics/Adaptive Skating sem og skautahlaupi. Skautasamband Íslands fagnar 30 ára afmæli á þessu ári og verður afmælishátíð ÍSS haldin hátíðleg að keppni lokinni á laugardag.
Við hvetjum ykkur öll til að leggja leið ykkar í Skautahöllina og fylgjast með öllum þessum flottu skauturum sína listir sínar ísnum.
14.02.2025
Sædís Heba Guðmundsdóttir lauk keppni á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar í gær en hún endaði í 22. sæti af 33. keppendum. Sædís fékk 36.58 stig fyrir stutta prógrammið sitt og svo 66.33 í frjálsa prógramminu í gær og 102.91 stig í heildina. Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (Eyof) eru einskonar Ólympíuleikar ungmenna í Evrópu en 45 þjóðir taka þátt í leikunum sem fer fram í Gergíu í fyrsta sinn. Listskautakeppnin var haldin í glænýrri höll í Batumi en þar var einnig keppt í skautahlaupi og íshokkí. Sædís og hópurinn hennar sem kepptu í Batumi ferðast í dag til Bakuriani þar sem lokahátíðin fer fram.
Við óskum Sædísi og Jönu þjálfara hennar til hamingju með þennan frábæra árangur. 💐
06.02.2025
Norðurlandamótið á listskautum sem fer fram í Asker í Noregi hefst í dag en Skautasamband Íslands sendir 4 keppendur til keppni sem allar að keppa í Advanced Novice girls. Við eigum einn keppanda í þessum hópi hana Ylfu Rún Guðmundsdóttir sem er á leið á sitt fyrsta Norðurlandamót. Ásamt Ylfu Rún keppa þær Elín Katla og Arna Dís frá Fjölni og Katla Karítas frá Skautafélagi Reykjavíkur. Ylfa skautar stutta prógramið sitt í dag en Ylfa er fyrst á ísinn í öðrum upphitunarhóp sem hefst kl. 15:25 á íslenskum tíma og hægt er að horfa á streymi af keppninni hér. Ylfa skautar svo frjálsa prógramið á morgun föstudag en mótið klárast svo á laugardag.
Við óskum Ylfu og öllum íslenska hópnum velgengni og hlökkum til að fylgjast með ykkur.
23.01.2025
Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær bjóða bæjarbúum til athafnar í Hofi í kvöld, fimmtudaginn 23. janúar kl. 17.30 þar sem kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar verður meðal annars lýst.
Verður þetta í 46. sinn sem Íþróttamaður Akureyrar er heiðraður og í níunda sinn þar sem bæði íþróttakona- og íþróttakarl Akureyrar eru valin og heiðruð.
Skautafélag Akureyrar á tvo fulltrúa í kjörinu að þessu sinni íshokkífólkið Shawlee Gaudreault og Jóhann Már Leifsson en bæði tvö eru á top 10 listanum fyrir valið í kvöld.
16.01.2025
Desember er með líflegri mánuðum í Skautahöllinni en aðsókn á almenningstímana var með besta móti í ár. Um 2000 gestir komu á almenningstímana í mánuðinum sem er að öllu jöfnu vel sóttur enda fastur liður í mörgum fjölskyldum að fara á skauta yfir hátíðirnar. Heildarfjöldi gesta á opna almenningstíma það sem af er tímabili er nú komin yfir 5000 gesti þegar skautatímabilið er hálfnað en það er með mesta móti frá því að Skautahöllin var opnum fyrir 25 árum. Fjöldinn allur af skólum og fyrirtækjum leigja allt svellið utan almenningstíma þar að auki og halda þar sín Litlu-jól.
20.12.2024
Sædís Heba Guðmundsdóttir var krýnd skautakona ársins 2024 hjá listskautadeild á sunnudag í lok glæsilegrar jólasýningar deildarinnar. Sædís Heba átti frábært ár en hún byrjaði árið á því að ná 15. sæti í Advanced Novice flokki á Norðurlandamótinu sem fram fór í Lettlandi í febrúar. Sædís skautaði í fyrsta sinn í Junior flokki þegar hún náði öðru sæti á Vormótinu sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri í mars. Sædís tók þátt í tveimur Grand Prix mótum í haust fyrst í Lettlandi og svo í Póllandi þar sem hún bætti sitt eigið stigamet. Sædís lokaði svo frábæru keppnistímabili með því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Junior flokkí á Íslandsmeistaramóti ÍSS sem fram fór í Egilshöll í lok nóvember en þar fékk Sædís 112.04 Stig. Við óskum Sædísi til hamingju með nafnbótina og frábæran árangur á árinu.
06.12.2024
Íþróttabandalag Akureyrar fagnar 80 ára afmæli sínu 20. desember næstkomandi. Af því tilefni verður slegið upp í íþróttahátíð í Boganum á Akureyri laugardaginn 7.desember.
Hátíðin verður sett með stuttu ávarpi formanns ÍBA klukkan 13:00 en hátíðin sjálf stendur til 17:00.