Einkatímar hjá Sönnu-Maiju!

Sanna-Maija mun bjóða upp á einkatíma fyrir þá sem áhuga hafa í æfingabúðunum. Til að panta tíma hjá henni er nóg að spyrja hana í lok ístíma í æfingabúðunum. Hún getur bæði lagað stökk, pírúetta, spor o.s.frv. og einnig prógröm (en ef á að gera prógröm þá verður iðkandinn að koma með útprentaðar lágmarkskröfur af síðu skautasambandsins). Einkatímarnir verða í framhaldi af æfingabúðunum eða milli 15 og 18. Hún tekur 700 kr. fyrir hverjar 15 mín, en hægt er að taka einkatíma í 15-30 mín. Þeir sem áhuga hafa skulu endilega notfæra sér þetta tækifæri þar sem Sanna hefur mikla reynslu af þjálfun og margar skemmtilegar og nýjar hugmyndir t.d. fyrir prógröm.

Aðalfundur hokkídeildar

Aðalfundur hokkídeildar verður haldin í Skautahöllinni fimmtudagskvöldið 9. ágúst kl. 20:00.

Skemmtileg ferð í Jarðböðin í gær!

Í gær fóru iðkendur æfingabúðanna ásamt þjálfurum og foreldrum í skemmtilega ferð austur. Stoppað var á 4 stöðum alls. Við byrjuðum á að skoða Goðafoss og keyrðum svo áleiðis að Námaskarði, þaðan lá leiðin í Jarðböðin við Mývatn og á endanum var stoppað á Grenjaðarstað þar sem hópurinn fékk leiðsögn frá Audrey, sem er safnvörður þar í sumar. Ekki var að sjá annað en að allir skemmtu sér konunglega og vonandi fer Nottingham gengið heim með fallegar minningar um Ísland og veru sína hér hjá okkur. Ég vil þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn kærlega fyrir að gera þessa ferð mögulega.

Æfingabúðirnar ganga vonum framar og eru allir að ná miklum framförum. Joy, Karen og Tristan eru virkilega ánægð með alla iðkendurna. Þau hlakka til að koma aftur og ætla þá jafnvel að koma með stærri hóp skautara með sér.

Það er gaman að sjá hversu áhugasama og duglega krakka við eigum hér á Akureyri og er ég mjög stolt af þeim öllum! 

Það er svo frí hjá öllum á sunnudag og mánudag og á þriðjudaginn kemur svo Sanna-Maija Wiksten að þjálfa hjá okkur. Hún var Finnlandsmeistari fyrir nokkrum árum og keppti t.d. á bæði Evrópumótum og Heimsmeistaramótum. Hún þjálfar þessa stundina í Helsinki. Einnig munum við fá til okkar Hólmfríði Jóhannsdóttur sem mun sjá um af-ís kennslu. Hún er íþróttakennari, Gravity, Fit Pilates og Les Mills kennari og kennir þessa stundina hjá líkamsræktarstöðinni Bjargi.

Kv. Helga Margrét yfirþjálfari

Smá sýning fyrir foreldra!

Kæru foreldrar og forráðamenn!

 

Þjálfararnir og börnin frá Nottingham munu kveðja Akureyri í bili nk. laugardag. Af því tilefni langar okkur að bjóða foreldrum, forráðamönnum, systkinum og vinum að koma og horfa á afraksturinn hjá hópunum á síðustu ísæfingum dagsins þar sem iðkendurnir munu sýna smá brot af því sem þeir hafa lært þessa 9 síðustu daga. Hópur 2 er milli 12:30 og 13:15, hópur 3 milli 13:15 og 14 og svo hópur 1 milli 14:15 og 15. Það væri gaman ef allir sem tóku þátt í æfingabúðunum gætu mætt í kjólum eða skautapilsum með hárið fallega greitt.

 

Helga Margrét

Yfirþjáfari