Öll aðildarfélög Íþróttabandalags Akureyrar tóku á laugardaginn 4.des þátt í sýningu í íþróttahúsi Síðuskóla í tilefni af 60 ára afmæli ÍBA. Aðildarfélögin eru sautján og þar á meðal er Skautafélag Akureyrar, sem að sjálfsögðu var með sinn bás á sýningunni.
Í sýningarbás SA var blandað saman á myndrænan hátt upplýsingum um sögu og starfsemi deilda félagsins og voru fulltrúar deildanna á staðnum til þess að fræða fólk og upplýsa. Sýningin tókst ágætlega en gestir hefðu gjarnan mátt vera fleiri.
Í ávarpi í sýningarskrá segir Þröstur Guðjónsson, formaður ÍBA, meðal annars: Ljóst er að íþróttafélögin og starfsemi þeirra er snar þáttur í bæjarlífinu og má segja að þau sameini margt í senn, sem gefur bæjar- og mannlífinu meira gildi en annars væri.