28.02.2025
U18 drengja landslið Íslands í íshokkí er nú mætt til Mexíkóborgar í Mexíkó þar sem liðið keppir á HM í 3. Deild B á næstu dögum. Liðið leikur æfingaleik við Nýja-Sjáland strax í dag en mótið sjálft hefst svo á sunnudag. SA á 15 fulltrúa í liðinu að þessu sinni og einnig aðila í fararstjórn liðsins. Auk Íslands eru Hong Kong, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Ísrael og Tyrkland í riðlinum en Ísland mætir Hong Kong í fyrsta leik mótsins á sunnudag kl. 19:00 á íslenskum tíma. Leikirnir verða væntanlega í beinni útsendingu en við birtum slóðina á Facebook síðu hokkídeildar á fyrsta leikdegi en á mótssíðu alþjóða íshokkísambandsins má fylgjast með tölfræði og dagskrá mótsins.
27.02.2025
Um helgina dagana 28. febrúar - 2. mars fer Vormót ÍSS fram hjá okkur hér í Skautahöllinni á Akureyri. Rúmlega 100 keppendur eru skráðir til leiks í ólíkum keppnislínum innan sambandsins en keppt í keppnislínu félaganna og Special Olympics/Adaptive Skating sem og skautahlaupi. Skautasamband Íslands fagnar 30 ára afmæli á þessu ári og verður afmælishátíð ÍSS haldin hátíðleg að keppni lokinni á laugardag.
Við hvetjum ykkur öll til að leggja leið ykkar í Skautahöllina og fylgjast með öllum þessum flottu skauturum sína listir sínar ísnum.
24.02.2025
Sunna Björgvinsdóttir og lið hennar Södertälje tryggði sér sigur í Sænsku Allsvenskudeildinni norður um helgina með tveimur sigrum á Malmö Redhawks. Södertälje er þá komið í úrslitaeinvígi um sæti í sterkustu íshokkí kvennadeild Evrópu, SDHL, en þar mætir liðið HV71.
Sunna átti stórleik í fyrri leiknum gegn Malmö og bar lið sitt á herðum sér þar sem hún skoraði 3 mörk og lagði upp það fjórða í 4-3 sigri og átti einnig góða leik í gær þar sem hún lagði upp fyrsta mark leiksins í 3-0 sigri. Sunna hefur verið einn albesti leikmaður Allsvenskudeildarinnar í vetur og mun mæða mikið á henni í úrslitaeinvíginu gegn HV71 sem endaði í næst neðsta sæti SDHL deildarinnar.
Katrín Rós Björnsdóttir og lið hennar í Örebro datt út í undanúrslitum í hinum helmingi Allsvenskudeildarinnar en þar komst Färjerstad í úrslitaeinvígið og mætir Leksand.
Fyrstu leikirnir í Playoff till SDHL eins og úrslitaeinvígið er kallað í Svíþjóð er á fimmtudag en þá mætast liðin á heimavelli Södertälje en vinna þarf 2 leiki til að sigra einvígið. Það er hægt að horfa á leikina í gegnum svenskhockey.tv gegn vægu gjaldi.
14.02.2025
Uppsetning á leikjum fyrri umferðar
14.02.2025
Mánudaginn 17. febrúar hefjast fyrstu leikir á íslandsmótinu.
14.02.2025
Sædís Heba Guðmundsdóttir lauk keppni á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar í gær en hún endaði í 22. sæti af 33. keppendum. Sædís fékk 36.58 stig fyrir stutta prógrammið sitt og svo 66.33 í frjálsa prógramminu í gær og 102.91 stig í heildina. Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (Eyof) eru einskonar Ólympíuleikar ungmenna í Evrópu en 45 þjóðir taka þátt í leikunum sem fer fram í Gergíu í fyrsta sinn. Listskautakeppnin var haldin í glænýrri höll í Batumi en þar var einnig keppt í skautahlaupi og íshokkí. Sædís og hópurinn hennar sem kepptu í Batumi ferðast í dag til Bakuriani þar sem lokahátíðin fer fram.
Við óskum Sædísi og Jönu þjálfara hennar til hamingju með þennan frábæra árangur. 💐
10.02.2025
Það voru þrír heimaleikir SA í Toppdeildunum í Skautahöllinni um helgina en liðin okkar tóku 6 stig úr leikjunum þremur og tryggðu bæði lið sér sæti í úrslitakeppnunum. Meistaraflokkur karla vann Fjölni á laugardag og kvennalið SA vann Fjölni í vítakeppni á laugardag en Fjölnir hafði betur í vítakeppni á sunnudag.
06.02.2025
Norðurlandamótið á listskautum sem fer fram í Asker í Noregi hefst í dag en Skautasamband Íslands sendir 4 keppendur til keppni sem allar að keppa í Advanced Novice girls. Við eigum einn keppanda í þessum hópi hana Ylfu Rún Guðmundsdóttir sem er á leið á sitt fyrsta Norðurlandamót. Ásamt Ylfu Rún keppa þær Elín Katla og Arna Dís frá Fjölni og Katla Karítas frá Skautafélagi Reykjavíkur. Ylfa skautar stutta prógramið sitt í dag en Ylfa er fyrst á ísinn í öðrum upphitunarhóp sem hefst kl. 15:25 á íslenskum tíma og hægt er að horfa á streymi af keppninni hér. Ylfa skautar svo frjálsa prógramið á morgun föstudag en mótið klárast svo á laugardag.
Við óskum Ylfu og öllum íslenska hópnum velgengni og hlökkum til að fylgjast með ykkur.
05.02.2025
Það er risa hokkíhelgi framundan hjá meistaraflokkunum okkar en það verða þrír heimaleikir spilaðir í Skautahöllini um helgina. SA Víkingar mæta Fjölni á laugardag og meistaraflokkur kvenna spilar tvíhöfða við Fjölni laugardag og sunnudag. SA Víkingar eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni við Fjölni og SR en SA Víkingar eru í lykilstöðu með 3 stiga forskot á SR og 8 stiga forskot á Fjölni og eiga einnig leiki til góða. Kvennaliðið okkar er í góðri stöðu um sæti í úrslitakeppninni með 12 stiga forskot á SR en 3 sigum á eftir Fjölni svo leikirnir um helgina geta einnig skorið úr um hvaða lið nær heimaleikjarétt. Við búumst við frábærum hokkíleikjum um helgina og ætlum að fyllum stúkuna og styðja okkar lið til sigurs takk fyrir.
31.01.2025
Á miðvikudag fór fram afhending á styrkjum Norðurorku til samfélagsverkefna vegna ársins 2025 í Menningarhúsinu Hofi en þar fékk Skautafélag Akureyrar veglegan styrk. Verkefnið sem Skautafélag Akureyrar fékk styrk fyrir eru skautar fyrir byrjendur á listskautum en en Stella Pauli tók við styrknum fyrir hönd Skautafélagsins. Skautafélag Akureyrar kann Norðurorku miklar þakkir fyrir styrkinn og þáttöku þess í samfélagsverkefnum á starfsvæðinu.