Kvennalið SA sigrar í fyrsta leik
Í gærkvöldi fór fram fyrsti leikur Íslandsmóts kvenna og fór leikurinn fram hér á Akureyri. Enn eru liðin í deildinni aðeins tvö, Skautafélag Akureyrar og Björninn en þessi lið hafa keppt um titilinn síðan árið 1999. Skautafélag Reykjavíkur tefldi fram liði tímabilið 2002 – 2003 sem gæddi deildina nýju lífi en því miður tókst þeim ekki að halda úti liðinu lengur en í eitt tímabil.
Lið SA hefur ekki tekið miklum breytingum frá því í fyrra og flestir lykileikmenn ennþá hjá liðinu, en helsta blóðtakan er brotthvarf Steinunnar Sigurgeirsdóttur. Lið Bjarnarins hefur aftur á móti misst fleiri leikmenn s.s. Hönnu Heimisdóttur, hokkíkonu ársins 2006, Flosrúnu Vöku og Karítas markmann.
Sarah Smiley er áfram þjálfari SA liðsins auk þess sem hún kemur til með að leika með liðinu, en hún lék ekki með að þessu sinni þar sem leikheimild var ekki frágengin.