Tillaga að fjölgun titla
Nú er enn einu tímabili hjá meistaraflokki karla að ljúka, nánar tiltekið 19. tímabilinu þar sem keppt hefur verið á Íslandsmóti 3ja liða eða fleiri. Fyrsta tímabilið var árið 1991 – 1992 þegar vélfrysta svellið í Laugadalnum komst í gagnið og Björninn hafði verið stofnaður. Sá er þetta skrifar hefur spilað öll 19 tímabilin, nokkur þeirra standa uppúr sem mjög eftirminnileg en sannleikurinn er sá að flest renna þau saman eitt, hvert öðru líkara.
Öll tímabilin hefur keppnisfyrirkomulagið verið það sama, þ.e. tvö efstu lið að stigum eftir undankeppni halda áfram í úrslitakeppnina þar sem keppt er um Íslandsmeistaratitilinn. Sá titill er það sem öll lið sækjast eftir, en aðeins eitt fær. Jafnframt er þetta eini titillinn sem keppt er um, jafnvel þó talað sé um deildarmeistaratitilinn þá er hann aðeins eftirsóknarverður vegna heimaleikjaréttarins sem hann tryggir liðum.