Guðmundur Egill Gunnarson, blaðamaður hjá www.sport.is skrifar ágæta umfjöllun um úrslitaleikinn og tökum við okkur það bessaleyfi að birta hana hér og spara okkur skrifin að þessu sinni.
Skautafélag Akureyrar varð í kvöld Íslandsmeistari í íshokkí eftir 6-2 sigur á Skautafélagi Reykjavíkur í oddaleik liðanna sem fram fór á Akureyri í kvöld. Heimamenn voru mun sterkari í leiknum þegar á heildina var litið en SR-ingar létu mótlætið fara í skapið á sér og fengu heimskulega brottreksta á sig sem gerðu liðinu erfitt fyrir.
SA 6 – 2 SR (3-1,3-2,6-2)
Það má gera ráð fyrir því að áhorfendamet hafi verið slegið í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld, stúkan var troðfull af fólki og kom rúta frá Reykjavík full af stuðingsmönnum SR. Hver einasta taug í líkömum leikmanna var þanin til hins ýtrasta þegar skautað var inn á ísinn í kvöld. Kærumál hefur sett lit sinn á keppnina en SR hefur kært úrslit síðustu tveggja leikja, þeir telja Josh Gribben þjálfara SA ekki vera löglegan leikmann.
Akureyringar fengu sannkallaða óskabyrjun því eftir aðeins þrjár mínútur voru þeir komnir yfir með marki fyrirliðans Jóns Benedikts Gíslasonar eftir mikinn darraðadans fyrir framan mark SR. Markið sló leikmenn SR algjörlega útaf laginu og lét SA kné fylgja kviði og bætti Jóhann Már Leifsson fljótlega við marki eftir glæsilega skyndisókn en leikmenn SR gátu sjálfum sér um kennt eftir mikinn klaufagang í vörninni. Ótrúleg byrjun heimamanna og voru þeir komnir 2-0 yfir eftir innan við fimm mínútna leik. Akureyringar héldu áfram að sækja og komust í 3-0 þegar fyrsti leikhlutinn var u.þ.b hálfnaður og var þar að verki reynsluboltinn Rúnar Freyr Rúnarsson. Hann fékk pökkinn ekki langt frá marki SR og hamraði hann upp í samskeytin og átti Ævar Björnsson í markinu ekki möguleika. Leikmenn SR ætluðu þó ekki að leggja árar í bát alveg strax því þeir minnkuðu muninn með marki frá Svavari Steinsen þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Markið var mjög keimlíkt fyrsta marki SA en mikið öngþveiti myndaðist fyrir framan mark SA og tókst Svavari að koma pekkinum í netið. Uppi varð fótur og fit hjá dómurum og leikmönnum liðanna hvort að markið væri gilt eða ekki en að lokum komust dómararnir að réttri ákvörðun og dæmdu markið gott.
Leikmenn Skautafélags Akureyrar lögðust örlítið til baka í upphafi annars leikhluta og gáfu SR-ingum meira pláss til þess að spila á enda heimamenn með góða tveggja marka forystu. Leikmenn SR fengu víti þegar 6 mínútur voru búnar af leiknum, vítið var dæmt á Ingvar Þór Jónsson fyrir brot á Agli Þormóðssyni. Egill tók vítið sjálfur og skoraði gegn Ómari Smára í marki SA. Reykvíkingar því aðeins einu marki undir og leikurinn galopinn. SR virtist vera að ná völdum á leiknum um miðjan leikhlutann en leikmenn SA fóru sér varfærnislega. SR-ingar fengu nokkrar ágætar sóknir sem þeir náðu ekki að nýta en svo fóru þeir að lenda í vandræðum með brottvísanir og þurftu að bakka aftar á völlinn. Þegar rúm mínútna var eftir af leikhlutanum fengu SR-ingar tvær brottvísanir á sama tíma, aðra fyrir að fella leikmann með kylfu og hina fyrir óíþróttamannslega hegðun og léku því tveimur færri síðustu mínútu leikhlutans. Josh Gribben fékk dauðafæri á lokaandartökunum en SR tókst að halda út án þess að fá á sig mark og staðan fyrir síðasta leikhlutann 3-2 fyrir heimamenn.