27.03.2025
Iðkendur SA í íshokkí og listskautum luku á mánudag við gerð samskiptasáttmála fyrir iðkendur og félagsmenn Skautafélags Akureyrar. Sáttmálinn er leiðarvísir til að viðhalda og styrkja jákvæða menningu innan félagsins. Sáttmálinn er afurð vinnu sem félagið fór af stað með í haust þar sem markmiðið er að auka umburðarlyndi og almenna virðingu innan félagsins í forvarnarskyni gegn hatursorðræðu, fordómum og ofbeldi.
25.03.2025
Sú sérkennilega staða er komin upp að úrslitakeppninni í Toppdeild sem hefjast átti á laugardag er frestað til 5. Apríl. SA Víkingar áttu að taka þar á móti Skautafélagi Reykjavíkur í fyrsta leik úrslitakeppninnar á Akureyri laugardaginn 29. mars. Það sem hefur gerst er að Fjölnir kærði leik Skautafélag Reykjavíkur gegn Skautafélagi Akureyrar sem fór fram 22. febrúar vegna notkunar á ólöglegum leikmanni en SR vann þann leik 3-0. Úrskurður íþróttadómstóls ÍSÍ var svo birtur um helgina þar sem kveðið er um að SR skuli sætta refsingu og tapar leiknum 10-0. Þetta þýðir að Fjölnir jafnar SR bæði að stigum og nær hagstaðara markahlutfalli í deildarkeppninni og nær því öðru sætinu af Skautafélagi Reykjavíkur. Stjórn íshokkísambands Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar þessa úrskurðar ÍSÍ um að úrslitakeppninni sé frestað til 5. apríl svo hægt sé að ákvarða hvort liðið mætir Skautafélagi Akureyrar í úrslitakeppninni.
17.03.2025
Fjórði leikur úrslitakeppninnar í Toppdeild kvenna fer fram í Skautahöllinni á morgun þriðjudagskvöldið 18. mars kl. 19:30. Fjölnir leiðir einvígið 2-1 en allir leikirnir hafa unnist á heimavöllum liðanna en SA freistar þess að knýja fram oddaleik sem fer þá fram í Egilshöll á fimmtudag. Við hvetjum allt SA fólk til að mæta í stúkuna og styðja vel við bakið á okkar liði.
16.03.2025
Við bjóðum uppá 4 vikna skautanámskeið sem hentar öllum sem vilja læra á skauta sér til heilsubótar eða auka þá færni sem er nú þegar til staðar. Námskeiðið er fyrir alla aldurshópa og er kennt á allar gerðir skauta - listskauta - hokkískauta og skautahlaups. Námskeiðið er kennt á miðvikudagskvöldum kl. 20:20-21:05 en fyrsti tíminn er 19. Mars og verð er 10.000 kr. fyrir námskeiðið.
15.03.2025
Íslandsmeistarmót í skautaati - short track var haldið á Vormóti Skautasambands Íslands hér á Akureyri helgina 1.-2. mars s.l. Skautaat er sú grein skautahlaups sem haldin er á stuttri brautu eða á sama ís og listskautar og hokkí. Greinin hefur verið stunduð í Skautafélagi Akureyrar í rúm 2 ár. Keppt var í tveimur vegalengdum og veittu samanlögð úrslit beggja vegalengda heildarúrslit mótsins.
11.03.2025
Fyrsti leikur í úrslitakeppni Toppdeildar kvenna fer fram í kvöld en SA mætir þar Fjölni í Egilshöll. Fjölnir er með heimaleikjaréttinn í seríunni en leikið er heima og að heiman þangað til annað liðið nær 3 sigrum og tryggir sér þá Íslandsmeistaratitilinn. Leikir liðanna hafa verið jafnir og spennandi allan í vetur en 6 af 8 leikjum hafa unnist með einu marki og 3 leikir hafa farið í framlengingu og vítakeppni. Við hvetjum fólk til þess að fjölmenna á þennan fyrsta leik í Egilshöll en leikurinn hefst kl. 19:45.
08.03.2025
Drengirnir okkar í U18 landsliðinu eru heldur betur búnir að bíta í skjaldarendur á HM í Mexíkó eftir bratta byrjun í upphafi móts. Eftir frábæran sigur á Tyrkjum á miðvikudag þá beið okkar heimaliðið Mexíkó sem er djöfullegt að eiga á heimavelli í 2300 metra hæð fyrir fullri höll. Okkar drengir spiluðu virkilega vel og gáfu Mexíkó hörkuleik en heimaliðið vann að lokum 5-2 sigur og tryggði sér þar með sigur í mótinu. Mörk og stoðsendingar Íslands voru öll skoruð af okkar drengjum í þessum leik en Mikael Eiríksson skoraði fyrsta markið Íslands í yfirtölu með stoðsendingu frá Elvar Skúlasyni og fyrirliðanum Bjarma Kristjánssyni. Stefán Guðnason skoraði síðara markið með klassísku coast to coast marki og var valinn maður leiksins hjá Íslandi í lok leiks. Bjarmi Kristjánsson (2+2) og Mikeal Eiríksson (1+4) eru stigahæstu leikmenn Íslands það sem af er móti báðir með 4 stig.
08.03.2025
Þrjár stúlkur frá LSA, auk skautara frá SR og Fjölni eru nú staddar í Osló þar sem íslenska landsliðið tekur þátt á Sonja Heine Trophy. Helga Mey (basic Novice) hóf keppni á fimmtudag og náði 17. sæti af 47 keppendum sem er glæsilegur árangur hjá henni. Ylfa Rún (Advanced Novice) hóf keppni í gær með stutta prógrammið og er sem stendur í 21 sæti með 24.38 stig að loknum fyrri keppnisdegi. Ylfa Rún heldur áfram keppni í dag klukkan 19:10 með frjálsa prógrammið. Sædís Heba hefur leik í Junior síðar í dag en upphitun í hennar hóp hefst kl. 10:57 og röðin kemur svo að henni kl. 11:14. Við fylgjumst með þeim úr fjarska og sendum þeim hlýjar kveðjur og ósk um gott gengi.
06.03.2025
Við kveðjum deildarkeppnina á laugardag með sannkallaðri hokkíveislu því bæði SA liðinn spila sína síðustu leiki fyrir úrslitakeppnirnar.
SA Víkingar eru deildarmeistarar og bikarinn fer á loft!
Ársmiðahöfum er boðið í upphitun í ársmiðasalnum hálftíma fyrir leik þar sem verður boðið uppá kaffi og kruðerí. Þjálfari SA ,Sheldon Reasbeck mætir og gefur smá innsýn fyrir leikina.
Fyllum stúkuna og styðjum okkar lið til sigurs.
SA Víkingar SR Kl 16:45
SA Kvenna SR Kl. 19:30
Hamborgarasalan hefst 30 mín fyrir leik og í leikhléi.
Ásgarður sjoppan í Skautahöllinni Opin.
Forsala Miða kvenna: https://stubb.is/events/b7919y
Forsala Miða karla: https://stubb.is/events/braWqo
28.02.2025
U18 drengja landslið Íslands í íshokkí er nú mætt til Mexíkóborgar í Mexíkó þar sem liðið keppir á HM í 3. Deild B á næstu dögum. Liðið leikur æfingaleik við Nýja-Sjáland strax í dag en mótið sjálft hefst svo á sunnudag. SA á 15 fulltrúa í liðinu að þessu sinni og einnig aðila í fararstjórn liðsins. Auk Íslands eru Hong Kong, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Ísrael og Tyrkland í riðlinum en Ísland mætir Hong Kong í fyrsta leik mótsins á sunnudag kl. 19:00 á íslenskum tíma. Leikirnir verða væntanlega í beinni útsendingu en við birtum slóðina á Facebook síðu hokkídeildar á fyrsta leikdegi en á mótssíðu alþjóða íshokkísambandsins má fylgjast með tölfræði og dagskrá mótsins.